136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd -- umhverfismál.

[10:46]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Merði Árnasyni hugulsemina í minn garð. Við erum eins og margir vita gamlir félagar og samstarfsmenn þannig að ég kippi mér ekkert upp við það þótt beri á ákveðinni kaldhæðni hjá honum öðru hverju. Hver hefur sinn máta á að tjá sig.

Varðandi það sem hv. þm. Atli Gíslason sagði þá sagði ég áðan að ég ætlaði ekki að elta ólar við þetta mál eða hverjar ástæðurnar voru. Búið er að halda fundinn og afgreiða málið en ég er einungis að vara menn við því að fara á þá braut sem menn gætu hugsanlega farið út á ef mið er tekið af því hversu lengi dróst að boða til þessa fundar. Hins vegar heyrist mér á því sem hv. þm. Atli Gíslason lét frá sér fara í ræðustólnum að ekki sé vanþörf á því að þetta mál verði tekið á dagskrá og til umræðu. Greinilegt er að hv. þingmaður hefur heilmikið um málið að segja og það eru hlutir sem ég vil gjarnan ræða við hann, ekki bara vegna þess að við erum ósammála um suma þeirra, því um suma þeirra erum við sammála og ég mundi gjarnan vilja heyra frekar um þá.

Að lokum, herra forseti, tek ég undir með hv. þm. Merði Árnasyni um að tímabært sé að taka hvalatillöguna á dagskrá líka, jafnvel í dag, þannig að við getum rætt hana og heyrt sjónarmið bæði hv. þm. Marðar Árnasonar og annarra, meiri hluta þingsins, um hvernig beri að standa að þessu máli í framtíðinni.