136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd -- umhverfismál.

[10:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Suðurk. fyrir að vekja máls á fundum umhverfisnefndar í upphafi þingfundar. Við áttum tvo fundi í þrennu lagi um loftslagsmálin í gær og ég held að þeir hafi allir verið gagnlegir, einn þeirra var sameiginlegur fundur utanríkismálanefndar og umhverfisnefndar með hæstv. umhverfisráðherra og fulltrúum úr ráðuneyti hennar til upplýsingar fyrir báðar nefndirnar og síðan umfjöllunarfundur um það þingmál sem hér hefur verið nefnt. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það dróst lítið eitt að boða til fundar í nefndinni. Ég held að út af fyrir sig sé rétt hjá hv. þingmanni að ágætt væri að fara yfir og skýra og skerpa verklagsreglur í þessu efni vegna þess að í þinginu er allur gangur á því með hvaða hætti orðið hefur verið við slíkum beiðnum og í sjálfu sér eru engar skýrar reglur fyrirliggjandi um það og ég held að það væri öllum til bóta og starfi í þinginu yfir höfuð að ljóst væri hversu mikinn frest menn hafa til að boða til slíkra funda.

Ég held líka að þá væri ágætt að skerpa á því hvað þingleg meðferð er enda er ég þeirrar skoðunar að þegar leitað er umsagnar aðila um þingmál sem hér eru til umfjöllunar sé það lágmarksvirðing af hálfu þingsins í garð þeirra sem þær umsagnir veita að gefa þeim kost á því að koma fyrir hlutaðeigandi þingnefnd og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum þannig að þar fari málefnaleg umfjöllun tryggilega fram. En allt þetta væri eflaust ágætt að skýra og skerpa.

Ég ætla ekki í efnislegar umræður um það mál sem hér er fyrir en ég held út af fyrir sig að hvert mannsbarn geti sagt sér hversu vænlegur sá leiðangur væri fyrir Ísland að fara eitt iðnríkja fram í veröldinni í dag og krefjast þess að fá að menga meira.