136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd -- umhverfismál.

[10:52]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hlý orð í minn garð sem hér hafa fallið að undanförnu og tek undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um það að þegar meiri hluti þingmanna er á máli — úr því að það skiptir máli í því frumvarpi og þeirri ályktunartillögu sem hér um ræðir að meiri hluti þingmanna er á því máli — þá hlýtur það líka að skipta máli fyrir umræðuna um hvalveiðar en ástæðan fyrir því að það mál hefur ekki komist á dagskrá þingsins er ekki meint valdspilling eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefnir, hvorki hjá forseta né hjá efasemdarmönnum um það mál, heldur sú sem forseti upplýsti fyrir rúmum hálfum mánuði þegar ég spurði sérstaklega um þetta mál, ég veit ekki hvort spurt hefur verið sérstaklega um það aftur. Flutningsmaður hafði ekki æskt þess að það mál kæmist á dagskrá en það verður hann að gera vegna þess að málið hefur það málsnúmer að það kemst ekki á dagskrá fyrr en einhvern tíma í haust ef þingið heldur áfram við venjulega iðju þannig að ekki er áhugi hjá flutningsmanni, a.m.k. þeim fyrsta og kannski ekki hinum heldur, að ræða málið á Alþingi. Hvernig stendur á því? Er það lýðræði? Ætlar meiri hlutinn að hafa sitt fram? Hvað var það sem meiri hluti þingmanna vildi með þessu máli? Var það kannski ekki að ræða það í þingsölum heldur að sýna það annars staðar? Var það þannig, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og fleiri flutningsmenn þessa máls? Var það heima í héraði en ekki í lýðræðislegri umræðu á Alþingi þar sem allar staðreyndir, álit og viðhorf kæmu fram? Það mikilvæga við að flytja málið á þingi er ekki bara það að bera það upp til samþykktar eða synjunar heldur líka að safna um það umsögnum, áliti, viðhorfum og gera það að umræðumáli í samfélaginu öllu. En það hafa flutningsmenn þessa máls um hvalina greinilega ekki viljað heldur nota þeir það bara í popúlísku skyni, í mjög (Gripið fram í.) svipuðu popúlísku skyni og það frumvarp sem hér er til umræðu. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Ég þakka enn fyrir þá athygli sem málum mínum er veitt í þessum sal og þakka auðmjúkur (Forseti hringir.) fyrir þá hrifningu sem mér er auðsýnd hér af hálfu ýmissa hv. þingmanna.