136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd -- umhverfismál.

[10:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil líkt og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kalla eftir því að þessi mikilvæga tillaga um loftslagsmálin verði rædd. Það er búið að afgreiða hana, að mér skilst, út úr nefnd og ræða hana þar og ég tel það mjög brýnt fyrir þing og ekki síst fyrir þjóðina að ræða þessa mikilvægu þingsályktunartillögu þar sem 1. flutningsmaður er hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sem sýndi á sínum tíma sem umhverfisráðherra mikinn dug og mikinn kjark að standa einmitt gegn afturhaldsöflunum sem réðust mjög grimmt að henni þegar verið var að gæta hagsmuna Íslands á alþjóðlegum vettvangi en ekki síst innan lands.

Það er alveg ljóst að við erum fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni Íslands en eðlilega eru í tengslum við þessa tillögu — og það er gott — mjög ríkir alþjóðlegir hagsmunir þannig að ég veit að við höfum kraft og afl til að geta sannfært heiminn um að með því að fylkjast um íslenska hagsmuni séu menn líka að tryggja að alþjóðlegir hagsmunir séu hafðir að leiðarljósi í umhverfislegu tilliti. Ég vil hvetja hæstv. forseta eindregið til að taka tillöguna á dagskrá sem og hvalamálið. Ég held að brýnt sé að það verði rætt. Það hefur margoft verið talað um það í ræðustól, m.a. af minni hálfu, að við tökum þá tillögu á dagskrá. Það er einkennandi að í báðum þessum tillögum eru það stjórnarflokkarnir, vinstri mennirnir, Samfylking og Vinstri grænir sem eru á móti því að þessar tillögur séu ræddar. Þetta eru tillögur í atvinnuskyni. Það kemur hins vegar ekki á óvart að tillögur varðandi atvinnumál fást ekki ræddar. Ég get nefnt Helguvík, ég get nefnt hvalamálið, hægt er að tala núna um loftslagsbreytingarnar og kröfur varðandi loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn síðar á árinu. Alltaf ber við það sama. Vinstri flokkarnir, Vinstri grænir og Samfylkingin, eru á móti því að þessi mál komist á dagskrá, (Gripið fram í.) eru á móti því (Forseti hringir.) að atvinnumál komist á dagskrá.