136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd -- umhverfismál.

[10:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þetta er afskaplega merkileg umræða. Ég veit ekki betur en Ísland og Kína séu á sama hnettinum og í Kína er verið að framleiða rafmagn í stórauknum mæli með brennslu kola. Ég veit ekki betur en Ísland og Suður-Afríka séu á sama hnettinum. Þar er sömuleiðis verið að framleiða ál með rafmagni sem framleitt er með því að brenna heilum fjöllum af kolum.

Það er mannkyninu til hagsbóta að ál sé framleitt á Íslandi og að íslensk raforka sé notuð vegna þess að hún er umhverfisvæn. Að láta sér detta annað í hug er fáránlegt. Þetta er einn hnöttur og þetta er eitt mannkyn og ál sem framleitt er í Kína eða í Suður-Afríku með rafmagni sem framleitt er með brennslu kola eða olíu eða gass mengar miklu meira. Þá kann einhver að spyrja: Af hverju erum við að framleiða ál yfirleitt? Það hefur verið sýnt fram á að álið sparar heilmikla mengun vegna þess að það er léttara heldur en stál í bílum. Þetta er hvort tveggja út í hött, þessi umræða er gersamlega út í hött og við eigum að snúa þessu við. Við eigum ekki að hafa íslenskt ákvæði í samningum um umhverfismál. Við eigum að bjóðast til að framleiða eins mikið og hægt er, eins og íslensk náttúra leyfir. Að sjálfsögðu göngum við ekki á íslenska náttúru. En við eigum að virkja eins og við mögulega getum á Íslandi mannkyninu til hagsbóta. Þetta er nefnilega einn hnöttur.