136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:04]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna því mjög að fleiri og fleiri eru orðnir sammála mér um að það sé jafnbrýnt að taka á dagskrá málið um hvalveiðarnar og leggja fram öll rök, viðhorf og sjónarmið í því efni og fréttir af erlendum vettvangi, bæði frá mörkuðum og utanríkisþjónustu ýmissa þjóða sem við þurfum að eiga vingott við, að það sé jafnmikilvægt að taka þetta mál á dagskrá og hitt málið sem meiri hluti þingmanna stendur á bak við og var rætt áðan.

Það er hins vegar uppi sá misskilningur að ljónin í vegi þess að þetta mál verði tekið á dagskrá, sem ég teldi mjög æskilegt, séu með einhverjum hætti forseti þingsins eða stjórnarflokkarnir tveir. Svo er ekki. Forseti þingsins hefur upplýst að 1. flutningsmaður málsins hefur ekki æskt þess eða farið fram á að málið sé tekið á dagskrá, sem hann þarf að gera vegna þess að málsnúmerið er mjög hátt. Málið kom mjög seint fram. Meðan staðan er sú að hann eða aðrir flutningsmenn málsins vilja ekki að málið komist á dagskrá þá fer það ekki á dagskrá. Hvað sem sá sem hér í stólnum (Forseti hringir.) stendur óskar lengi eftir því. Þannig er málið. Maðurinn sem í vegi stendur heitir Einar K. Guðfinnsson, hv. þingmaður.