136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Eins og aðrir þingmenn sem hér hafa talað tek ég undir tillögu hv. þingmanns, Sigurðar Kára Kristjánssonar. Ég á einnig sæti í allsherjarnefnd og við höfum unnið mjög mikið í þessu máli á undanförnum vikum og teljum að komin sé niðurstaða sem geti gagnast ákveðnum hópi heimila í landinu mjög vel.

Hér er um að ræða mikið hagsmunamál fyrir þau heimili sem í hlut eiga og það væru vissulega skýr og góð skilaboð frá þinginu ef þetta mál yrði tekið fram fyrir deilumál eins og stjórnarskipunarlögin og afgreitt hratt og örugglega. Ég held að það væri mjög mikilvægt innlegg af hálfu okkar þingmanna að auka bjartsýni hjá almenningi í landinu sem vissulega hefur þungar áhyggjur af þeirri stöðu sem uppi er í efnahagsmálum, sérstaklega hvað varðar skuldastöðu heimilanna.