136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:10]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég hef ekki fengið svör við óskum mínum um að þessum fundi verði slitið og boðað til nýs fundar með nýrri dagskrá þar sem fyrsta mál á dagskrá verði greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Ég er flutningsmaður þessa máls ásamt öllum hv. þingmönnum í allsherjarnefnd. Ástæðan fyrir því að þverpólitísk samstaða skapaðist um þetta mál er mikilvægi þess fyrir heimilin í landinu.

Ég hreinlega trúi því ekki að hæstv. forseti og þingheimur allur geti ekki fallist á að þetta mál um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði verði ekki tekið hér fyrir sem fyrsta mál á dagskrá þessa þings. Ég óska eftir því að fundinum verði slitið, eftir atvikum boðað til fundar með (Forseti hringir.) formönnum þingflokka og boðað til nýs fundar. Ellegar mun ég leggja fram skriflega dagskrártillögu þar sem ég mun óska eftir breytingu á dagskrá þessa fundar.