136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:20]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þingreynsla mín er ekki mikil enda er ég varamaður hér á þinginu að þessu sinni, en 1. mgr. 63. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Forseti boðar þingfund og ákveður dagskrá hvers fundar.“ Það er meginmálið.

Síðan stendur hér: „Þó má ákveða dagskrá næsta fundar eftir ályktun þingsins.“

Þetta var gert í gær, sá ég, þá var borin hér upp dagskrártillaga, reyndar um dagskrá þess fundar sem þá stóð yfir. Nú er borin fram önnur dagskrártillaga í dag um dagskrá þessa fundar sem á að slíta og síðan um dagskrá næsta fundar.

Ég óska eftir því að þingreyndir menn, starfsmenn þingsins og þeir sem lengst hafa setið hér, geri okkur grein fyrir því hvaða skýringar eru á bak við aðra setninguna um að ákveða dagskrá næsta fundar eftir ályktun þingsins, því að allir sjá að það er gjörsamlega útilokað að halda uppi þingstörfum hér ef taka á til afgreiðslu fjölda dagskrártillagna (Forseti hringir.) um þann fund og hina næstu á hverjum fundi. Það er bara leið til þess að eyðileggja þingstörfin og það er greinilega það sem vakir fyrir flutningsmanni (Forseti hringir.) þessarar tillögu og félögum hans í Sjálfstæðisflokknum sem halda hér uppi málþófi og koma í veg fyrir að þingið geti gengið sinn gang.