136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:21]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt sem kemur fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni, það er bersýnilegt að hér beitt öllum brögðum til þess að reyna að trufla og eyðileggja það að þingstörf geti gengið eðlilega fyrir sig.

Í gær var lögð fram dagskrártillaga um, eins og ég skildi hana, dagskrá þessa fundar sem stendur yfir núna. (Gripið fram í: Nei.) Hún var felld. Að sjálfsögðu var hún um dagskrá næsta fundar, það var þannig sem forseti las hana upp og það er í samræmi við þingsköp, og ég vona að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir vilji halda sig við þingsköpin.

Tillaga um dagskrá fundarins í dag var felld og þess vegna á þessi fundur að sjálfsögðu að halda áfram eins og forseti hefur lagt dagskrána upp. Ef menn vilja endilega koma með dagskrártillögu um dagskrá næsta fundar, sem er þá væntanlega á morgun, geta menn gert það í lok dags. Dagskrá þessa fundar hlýtur að eiga að halda áfram (Gripið fram í.) í samræmi við þá dagskrá sem forseti hefur lagt fram og í samræmi við þingsköp, virðulegi forseti. (Gripið fram í.)