136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Mér finnst dapurlegt að fylgjast með framgöngu sjálfstæðismanna í þessari umræðu þar sem þeir beita með mjög markvissum hætti málþófi hér á þingi. Ég vil minna á að við erum einungis í 2. umr. um breytingar á stjórnarskipunarlögum. Lagafrumvörp sem þessi þurfa að fara í gegnum þrjár umferðir og fá þinglega meðferð. (Gripið fram í.) Við gætum klárað þá umræðu fljótt og vel og tekið önnur brýn mál fyrir. Væntanlega færu breytingar á stjórnarskránni inn í nefnd aftur á milli umræðna, ég býst við því.

En mér finnst sorglegt að fylgjast með framgöngu Sjálfstæðisflokksins hér þar sem hann reynir að tefja umræðu um mikilvæg mál eins og stjórnarskrána og um vanda heimila og fyrirtækja. Það er leitt að sjá hvernig fyrir þessum þingflokki er komið. (Gripið fram í.)