136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir afar góða ræðu. Við hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson erum ekki alltaf sammála um þau mál sem snúa að stjórnskipun landsins en hins vegar eru flest þau atriði sem hann nefnir í ræðu sinni þess eðlis að mér finnst þau eiga mikið erindi í þessa umræðu og get tekið undir afar margt sem hann segir í því sambandi.

Það er eitt atriði sem ég ætlaði að ræða sérstaklega við hv. þingmann, það sem snýr að þjóðaratkvæðagreiðslum. Hann vakti réttilega athygli á því að í tillögum frumvarpsins er búið að taka út það sem sýnt var á fyrri stigum um að þriðjungur þingmanna gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál. Ég vildi spyrja hann í fyrsta lagi hvort hann teldi að sú leið, að þriðjungur þings geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu eins og er t.d. í danska þinginu, útiloki á einhvern hátt að þjóðaratkvæðagreiðsla verði að þjóðarfrumkvæði.

Í öðru lagi vildi ég spyrja hann hvort hann teldi ekki, eins og ég, að með því að hafa slíkar leiðir til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi tiltekinna laga væri fallinn burtu tilgangur 26. gr. stjórnarskrárinnar sem gerir samkvæmt orðanna hljóðan ráð fyrir því að forseti geti neitað að staðfesta lög og mál gangi þar með til þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort að það að þriðjungur þings geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin lög og að tiltekið hlutfall þjóðarinnar geti gert slíka kröfu geri það ekki að verkum að það sé óþarfi að láta slíkt vald liggja hjá forseta lýðveldisins.

Að lokum spyr ég hv. þingmann hvort hann teldi ekki að þær breytingar sem hafa verið gerðar varðandi þjóðaratkvæðagreiðslurnar og (Forseti hringir.) málsmeðferð í því sambandi, skortur á rökstuðningi og annað, séu ekki til vitnis um að málið er óþroskað (Forseti hringir.) og vanreifað og vanrætt.