136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:08]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal bara íhuga hvort það sé rétt að hreyfa því í forsætisnefnd að taka til umræðu þetta stjórnarskipunarfrumvarp út frá því sjónarmiði að það sé samið á þann veg að í því séu verulegar mótsagnir og þess vegna galli á framsetningu þess.

Hinu er hins vegar ekki hægt að leyna að menn hafa víðtækt frelsi til að flytja þingmál. Innihald þeirra getur verið með ýmsum hætti og það er svolítið erfitt að setja skorður við því að menn flytji „vitlausar“ tillögur, svo ég taki til orða eins og hér var gert fyrr í morgun af öðru tilefni þó að ég vilji ekki leggja í vana minn að fella dóma yfir hugmyndum eða tillögum sem aðrir flytja.

Það er auðvitað ástæða til að hafa áhyggjur af þessu máli því að miðað við það hvernig frumvarpið er frágengið getur verið kapphlaup á milli Alþingis og stjórnlagaþingsins um að vísa málum til þjóðarinnar. Alþingi getur eftir sem áður, á því ári sem líður frá því að ákvæði kemur inn í stjórnarskrá, ákveðið að stjórnarskrárbreytingum skuli framvegis vísað til þjóðarinnar og þar til að stjórnlagaþingið kemur saman 17. júní 2010 getur Alþingi gert breytingar á stjórnarskránni og sent þær til þjóðarinnar. Svo getur stjórnlagaþingið samið nýja stjórnarskrá og sent hana líka til þjóðarinnar þannig að mér finnst þetta fyrirkomulag vera kvíðaefni svo ekki sé meira sagt.