136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:09]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hann hét okkur þingmönnum því að taka þetta upp í forsætisnefnd þingsins og ræða gæði þessa lagafrumvarps. Það er í fullu samræmi við það sem Alþingi hefur ákveðið og þær breytingar sem gerðar voru á þingskapalögunum árið 2007 og einnig í samræmi við það sem fram kom í samvinnu forsætisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og Alþingis við gerð handbókar um lagasmíð. Þeim mun strangari reglur sem menn setja sér um lagasmíðina þeim mun strangari reglur ættu þeir líka að setja sér um breytingar á stjórnarskránni.

Ég held að það sé mjög tímabært, og raunar mundi það greiða fyrir þingstörfum, að hv. þingmaður beiti sér í forsætisnefndinni, taki þetta mál fyrir og við fáum leiðbeiningu frá forsætisnefnd um það hvort hún telji þetta í raun og veru forsvaranlegt miðað við þær reglur sem við höfum sett og þau markmið sem þingið hefur sett sér um gæði lagasmíða.