136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:16]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki alveg segja hvernig dómstólar mundu skera úr þessu álitaefni. En það eru fordæmi fyrir því að mönnum sé bannað að bjóða sig fram til Alþingis þannig að það liggur að minnsta kosti fyrir að hægt sé að setja það ákvæði í stjórnarskrá að slíkt sé gert. Ég veit ekki hvort það væri hægt að hafa það í almennum lögum eins og mér sýnist á frumvarpinu að meiningin sé. Mér finnst það miklu hæpnara og mér finnst að þá yrðu menn líka að setja bann við að þeir sem sætu á stjórnlagaþingi mættu bjóða sig fram til Alþingis vegna þess að það verður þá að loka fyrir þessum meintum hagsmunatengslum sem gætu skaðað starfið sem menn eiga að vinna.

Mér finnst hvort tveggja óeðlilegt. Mér finnst bara að þingmenn eigi að vinna sína vinnu í stjórnlagagerð, hvort sem það er á Alþingi eða stjórnlagaþingi. Þeir eiga að vera aðilar að því og þeir eiga að hafa stjórn á því máli eins og þeir eru kosnir til. Ef kjósendur eru ekki sáttir við það þá kjósa þeir sér aðra þingmenn.