136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég var ekki syfjaður í nótt og ég man gjörla eftir þeirri umræðu sem við áttum þá en mér fannst hv. þingmaður ekki svara mér. Ég vildi færa rök fyrir því að auðlind er ekki auðlind fyrr en maðurinn kemur að henni. Jökulárnar voru til skaða hér áður fyrr. Nú eru þær orðnar auðlind vegna þess að mannsvitið og mannshugurinn, verkfræði og annað slíkt, hefur getað galdrað fram úr þeim kraft sem svo aftur er verðmæti. Það sama gildir um sjávarútveg og þær auðlindir, allt byggir þetta á því að það sé einhver maður sem með hugviti sínu, kjarki og þori nýtir eða gerir verðmæti úr auðlindinni sem ekki var auðlind áður. Þess vegna var spurning mín í nótt sú hvort eðlilegt sé að setja í stjórnarskrá eitthvert fyrirbæri sem kemur og fer og er háð einhverju allt öðru sem er í rauninni mannauðurinn. Ég hef sagt áður að mannauðurinn sé kannski sú auðlind sem er það alverðmætasta í landinu og hún mundi væntanlega ekki flokkast undir náttúruauðlindir þó að allar náttúruauðlindir séu háðar því að til sé mannauður.

Svo fórum við líka í gegnum muninn á ríki og þjóð í nótt og mér fannst ég ekki fá almennilegt svar við því. Eins og ég gat um eru til þjóðir sem búa í mörgum ríkjum og til eru ríki sem rúma margar þjóðir. Mér finnst hugtakið „þjóð“ vera miklu óáþreifanlegra en hugtakið „ríki“, sem er með kennitölu, er ákveðin lögpersóna og getur átt stóla og húsnæði og bíla o.s.frv. sem þjóðin getur tæplega átt því að það er spurning hver eigi eiginlega að stjórna bílnum sem þjóðin á.