136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

úrskurður forseta um dagskrártillögu.

[13:34]
Horfa

Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti hefur athugað þá dagskrártillögu sem lögð hefur verið fram á þessum fundi svo og afgreiðslu sams konar tillögu sem lögð var fram í gær og afgreidd um að þingfundi sé slitið og boðað til nýs fundar með þar til greindri dagskrá. Þótt hér sé ekki um algjört nýmæli að ræða telur forseti að stefnt geti í nokkurt óefni með þingstörf ef búast má við að dagskrártillögur af þessu tagi verði að nýrri venju og telur nauðsynlegt að úrskurða um það hvernig með slíkar tillögur skal fara.

1. mgr. 63. gr. þingskapa hljóðar svo:

„Forseti boðar þingfundi og ákveður dagskrá hvers fundar. Þó má ákveða dagskrá næsta fundar eftir ályktun þingsins.“

Það liggur fyrir að ályktun þingsins samkvæmt þessu ákvæði þingskapa hlýtur að vera í formi dagskrártillögu. Með hliðsjón af því að efni slíkrar tillögu er dagskrá næsta fundar, og ekkert annað, ekki um það hvað þingfundur getur staðið lengi, hvort slíta eigi þingfundi — slíkt vald er í höndum forseta — heldur aðeins um hvernig dagskrá næsta fundar verður, úrskurðar forseti að slík tillaga komi eigi til atkvæða á þingfundinum fyrr en við lok hans, þ.e. þegar dagskrá yfirstandandi fundar er tæmd.