136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

úrskurður forseta um dagskrártillögu.

[13:37]
Horfa

Björn Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég lýsi megnri óánægju með þennan úrskurð forseta og túlkun hans á þingskapalögunum og tel að það hafi aldrei verið ætlunin að túlka þau á þann veg að vilji menn breyta hér dagskrá þingsins og fá ekki hljómgrunn hjá forseta sé það ekki unnt fyrr en dagskráin hefur verið tæmd. Það gengur ekki upp, virðulegi forseti, að túlka þessa grein þannig.

Höfuðatriði málsins er það sem hæstv. forseti sagði, að það stefndi hér í mikið óefni vegna þess hvernig haldið er á forsetaembættinu og stjórn fundarins. Það er kjarni málsins. Það sem við fórum fram á er að menn leiti sátta. Þess vegna er þetta líklega svona óljóst orðað í þingsköpum, að menn hafa líklega aldrei vænst þess að þannig væri haldið á stjórn mála að ekki væri leitað sátta áður en í það óefni væri komið sem hæstv. forseti lýsti í orðum sínum.