136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

úrskurður forseta um dagskrártillögu.

[13:46]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Eins og hæstv. forseti veit hefur verið krafa uppi um það í samfélaginu að stjórnmálamenn í öllum flokkum vinni saman að því að leysa vanda heimilanna og fyrirtækjanna. Það er akkúrat það sem þessi dagskrártillaga mín gengur út á. Hún gengur út á það að við förum í það samhent að greiða úr vanda heimilanna með því að ræða hér um greiðsluaðlögunarfrumvarpið.

Mér finnst furðulegt að hv. þingmenn sem standa að þessu máli séu ekki reiðubúnir til þess að styðja eigin tillögu og styðja það að hún komist hér til umræðu. Það er brýnasta hagsmunamál heimilanna að sögn ríkisstjórnarflokkanna sjálfra að það fáist rætt.

Ég legg hérna fram tillögu sem er algjörlega í samræmi við það sem sagt hefur verið í þjóðfélaginu og við höfum verið hvött til þess að fjalla um málefni heimilanna og fyrirtækjanna og gera það saman og snúa bökum saman. Það gerðum við í allsherjarnefnd og það veit hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Þess vegna finnst mér einkennilegt og það veldur mér vonbrigðum að við skulum ekki standa hér (Forseti hringir.) og ræða þetta mál í 3. umr. svo að það sé hægt að gera það að lögum (Forseti hringir.) jafnvel í dag.