136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

úrskurður forseta um dagskrártillögu.

[13:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil eindregið taka undir það sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði hér. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við náum helst í dag að gera að lögum frumvarpið um greiðsluaðlögun. Það skiptir miklu fyrir fjölskyldurnar og heimilin í landinu.

Ég vil líka leyfa mér að lýsa því yfir að ég er ósammála því sem forseti lýsti hér áðan yfir varðandi það að ekki ætti að taka tillögu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar til afgreiðslu eða atkvæðagreiðslu fyrir en við lok fundar. Gott og vel, ég skal engu að síður reyna að hugsa það og sætta mig við það ef hæstv. forseti, sem er forseti alls þingsins, ef hann ætlar að nota núna næsta klukkutímann fram til þrjú þar til fundi verður væntanlega slitið, ef hann ætlar að nýta þá næsta klukkutímann í það að ná ákveðinni sáttagjörð hér innan þings og sýna þann manndóm að hann sé forseti alls þingsins og nýta þá næsta klukkutímann þar til dagskrártillagan verður borin upp til þess að ná sáttum við (Forseti hringir.) sjálfstæðismenn í þágu þjóðarinnar, þ.e. að við tökum þá stjórnarskrármálið fyrir, (Forseti hringir.) reynum að ná samkomulagi þar og förum að tala um þau mál sem skipta heimilin (Forseti hringir.) og fyrirtækin mestu máli. Forseti á að beita sér fyrir því.