136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:07]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Herra forseti. Við ræðum hér stjórnarskrána og breytingar á henni eins og við höfum gert síðustu daga. Þingmenn stjórnarminnihlutans, eða stjórnarsinnar réttara sagt, hafa farið mikinn og gert mikið úr því hversu mikið við sjálfstæðismenn tölum um stjórnarskrána. Einstaka þingmenn hafa talað um ósvífinn minni hluta og hv. þm. Grétar Mar Jónsson leyfði sér að tala um þessa orðræðu okkar sjálfstæðismanna um stjórnarskrána sem skrípaleik.

Ekki er hægt annað, virðulegi forseti, en að lýsa furðu sinni á þeim ummælum sem hv. þingmenn hafa látið falla hér því að það er auðvitað alvörumál þegar knappur meiri hluti þingmanna ætlar að þvinga í gegn breytingu á stjórnarskránni í fullkominni andstöðu við stærsta þingflokkinn á Alþingi og brjóta þar með blað í öllum þeim vinnubrögðum sem tíðkast hafa frá upphafi varðandi breytingar á stjórnarskránni.

Það hlýtur alltaf að þurfa að ræða mikið um stjórnarskrárbreytingar, hvort sem um þær er fullkomin samstaða eða ekki. En þegar engin samstaða er um þær, eins og nú háttar til, er auðvitað enn meiri ástæða til umræðu. Sú þögn sem þingmenn hins knappa meiri hluta fyrir þeim breytingum láta ríkja er auðvitað umhugsunarefni. Af hverju skyldu þeir þegja? Það er sjálfsagt, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson benti hér á, vegna þess að þeir vita að þeir hafa hræðilegan málstað að verja. Það er ekki flóknara en það.

Í ræðu minni hér á föstudaginn rifjaði ég það upp að á lýðveldistímanum hefur það eingöngu einu sinni gerst að stjórnarskrárbreyting væri knúin í gegn í andstöðu við þingflokk á Alþingi. Þá voru kringumstæður með allt öðrum hætti. Þá var viðkomandi stjórnmálaflokkur nefnilega að missa völd. Það var verið að breyta kjördæmaskipaninni. Það var verið að gera hana réttlátari og jafnari og það lá fyrir að það mundi kosta þann stjórnmálaflokk atkvæði því að hann hafði notið góðs af ranglætinu.

Ég rakti í ræðu minni á föstudaginn nokkur ummæli og það olli mér miklum vonbrigðum að hvorki talsmenn Samfylkingarinnar né Vinstri grænna sáu ástæðu til að útskýra hvað hefði breyst frá árinu 2007. Þá reyndi, eins og ég rakti, meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að knýja fram stjórnarskrárbreytingu í andstöðu við minni hlutann. Þá fóru þingmenn minni hlutans í þinginu mikinn. Ég rakti nokkur ummæli, m.a. ummæli hæstv. fjármálaráðherra núverandi, sem þá var í minni hluta. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Það er einsdæmi í sögu lýðveldisins að menn hyggist standa að stjórnarskrárbreytingum með þessum hætti, að formenn tveggja tiltekinna flokka taki sig saman og komi með svona snöggsoðið mál inn á þing á lokadögum og ætli því afgreiðslu.“

Hæstv. fjármálaráðherra var nú í salnum þegar þessi ummæli féllu en hann sá ekki ástæðu til þess að gefa útskýringu á því hvað hefði breyst. Ég skil það svo sem ósköp vel því að auðvitað getur hann ekkert útskýrt það. En af því að nú hittist svo á að hv. þm. Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, er í salnum þá kannski kemur hann hér í pontu á eftir og svarar því hvað hafi breyst. Af hverju vinnubrögð sem flokkur hans átaldi svo réttilega 2007 eru orðin í lagi í dag? (Gripið fram í.) Ég ætla þá líka að endurtaka ummæli Jóns Bjarnasonar — ég er reyndar í tvígang búin að skora á hann að vera hér viðstaddan í þingsalnum og svara mér. (Gripið fram í.) Hann segir hér, með leyfi forseta:

„Hér hefur komið fram að með þessum vinnubrögðum er á vissan hátt brotin hefð eða a.m.k. góðar vinnureglur og siðvenjur sem hafa ríkt um stjórnarskrárbreytingar almennt, þ.e. að þær séu unnar og undirbúnar í samkomulagi þingflokka á Alþingi hverju sinni og að þar sé ekki flanað að breytingum eða lagðar fram óunnar eða lítt unnar tillögur eins og hér er verið að gera. Það hefur verið hyllst til að ná víðtæku samkomulagi um grundvallarbreytingar, um breytingar á stjórnarskránni, og þá frekar verið gætt íhaldssemi í þeim efnum til að fara þar ekki fram með ósætti.

Sú sátt er rofin með þessu frumvarpi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og verða það að teljast afar óábyrg vinnubrögð … Það hefur ekki gefist vel að mínu mati, herra forseti, þegar stjórnarskránni hefur verið breytt í ósætti eða ekki verið fullt samkomulag um breytingarnar.“

Virðulegi forseti. Við sjálfstæðismenn hefðum ekki getað orðað þetta betur. Þetta er snilldarlega orðað hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Það getur vel verið að hv. þm. Atli Gíslason, sem kallaði hér fram í og sagði að þessu hefði verið svarað — ég hef aldrei heyrt þessi svör og ég kalla eftir þeim og óska eftir því að þau verði sett fram héðan úr þessum stól.

Það gerðist hins vegar í ræðu minni á föstudaginn að hæstv. forsætisráðherra var viðstaddur og kom í andsvör vegna ræðu minnar. Þar skýrði hún frá því viðhorfi sínu að stjórnmálaflokkarnir — það væri nauðsynlegt að vinna að stjórnarskrárbreytingunni með þeim hætti sem hér er gert, þ.e. í fullkomnu ósætti við stærsta þingflokkinn, af því að stjórnmálaflokkarnir hefðu ekki verið færir um að afgreiða með eðlilegum hætti ýmsar breytingar sem séu nauðsynlegar á stjórnarskránni eins og réttlátar breytingar á kjördæmaskipuninni. Slíkt mál yrði að fara fyrir stjórnlagaþing svo að dæmi væri tekið af hennar hálfu.

Þá veltir maður fyrir sér, virðulegi forseti, hvað það er sem gefur hæstv. forsætisráðherra þá trú að halda að verkefni sem Alþingi hefur að hennar mati ekki ráðið við í gegnum tíðina, ég er henni raunar ekki sammála — hví skyldi stjórnlagaþing vera eitthvað betur í stakk búið til þess að ráða við það verkefni? Hvaða trú, ofurtrú er það sem hæstv. forsætisráðherra hefur á stjórnlagaþingi? Er það ekki sama þjóðin sem mun kjósa stjórnlagaþingið og hefur kosið Alþingi? Hún nefndi í andsvari sínu við mig að alþingismenn væru alltaf að máta sig við ýmsar breytingar og nefndi hún t.d. kjördæmabreytingar. En hvað er það sem veldur því að hún heldur að fulltrúar á stjórnlagaþingi muni ekki máta sjálfa sig eða þá hagsmuni sem þeir sitja fyrir við þær breytingar sem til umræðu eru hverju sinni? Hvað er það sem veldur því að hæstv. forsætisráðherra heldur að stjórnlagaþing sé töfraorðið í dag? Verða ekki fulltrúar á stjórnlagaþingi, hvað sem þeir enda nú með að verða margir, einhvers konar þverskurður af þjóðinni alveg eins og Alþingi er? Verða þeir ekki einhvers konar þverskurður af hagsmunum í landinu?

Mér er gjörsamlega óskiljanlegt af hverju hæstv. forsætisráðherra bindur þessar miklu væntingar við stjórnlagaþing. Mér liggur við að segja að það sé barnaskapur að halda þetta. Og af því ég sé hv. þm. Jón Bjarnason sem ég vitnaði í áðan, hans snilldarlegu ummæli frá því fyrir tveimur árum, þá kemur hann kannski hingað á eftir og svarar mér hvað hefur breyst.

En vegna þeirrar barnalegu ofurtrúar á stjórnlagaþingi, sem hinn naumi meiri hluti á þingi hefur, ætla ég að vitna í umsögn Sigurðar Líndals, fyrrverandi prófessors. Hann er sammála því að setja eigi á laggirnar stjórnlagaþing. Hann segir svo í umsögn sinni, með leyfi forseta, og það finnst mér vera kjarnaatriði:

„Annars get ég ekki dulið þá skoðun mína að ólíklegt sé að þing skipað 41 manni valdi þessu verkefni. Líklegast er að þingið þróist yfir í eins konar umræðufund og þrætusamkomu sem sökkvi niður í deilur sem engu skili. Vænlegra væri að fá lítinn hóp valinkunnra manna sem njóta almenns trausts til að setja saman tillögu að stjórnarskrá. Hana mætti bera undir stjórnlagaþing sem hefði skýrt afmarkað hlutverk og að lokum gengi hún til þjóðaratkvæðis.“

Þarna kemur fyrrverandi prófessor, Sigurður Líndal, að ákveðnum kjarna í málinu. Stjórnlagaþingið þarf að hafa skýrt afmarkað hlutverk. Eins og málin eru nú kynnt af þeim nauma meiri hluta sem hér ræður öllu, er hann að setja upp algjöra stjórnskipulega ringulreið. Hann ætlar að láta tvö stjórnlagaþing vera í gangi. Þrátt fyrir þá ofurtrú sem hann ber til stjórnlagaþingsins, sem á að geta gert allt sem Alþingi hefur hingað til ekki getað gert, treystir hinn naumi meiri hluti stjórnlagaþinginu ekki betur en svo að búið er að ákveða fyrir fram ákveðin atriði eins og auðlindaákvæðið.

Eins og réttilega er bent á í umsögn Lögmannafélags Ísland, laganefndar þess félags, er verið að festa auðlindaákvæðið. Hvað ætlar Alþingi að gera ef stjórnlagaþingið fellir t.d. þetta auðlindaákvæði úr stjórnarskránni? Hvað ætlar Alþingi að gera ef stjórnlagaþingið telur að auðlindaákvæðið eigi ekki að vera í stjórnarskránni? Hvað ætlar Alþingi þá að gera? Breyta stjórnarskránni aftur sem stjórnlagaþingið setur? Hvað ætlar Alþingi að gera ef stjórnlagaþingið ákveður að leggja Alþingi niður, og á sama tíma samþykkti Alþingi að leggja niður stjórnlagaþingið líka þannig að við verðum löggjafarsamkundulaus?

Nei, virðulegi forseti. Það er alveg sama hvernig á þetta mál er litið. Þetta er tóm vitleysa allt saman og það er fjarstæðukennt, þó að hæstv. forsætisráðherra haldi það, að þjóðin bíði í ofvæni eftir þessum stjórnarskrárbreytingum. Það kom berlega fram í gær í sjónvarpinu á kosningafundi í Norðvesturkjördæmi eftir hverju þjóðin bíður í ofvæni. Hún bíður í ofvæni eftir þeim aðgerðum sem stjórnin hefur lofað en telur ekki mikilvægari en svo að hún setur þau mál á dagskrá eftir umræður um stjórnarskrána.

Af því að hinn naumi stjórnarmeirihluti virðist telja að enginn nema Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti breytingum á stjórnarskránni langar mig að benda á að hér eru á fjórða tug umsagna sem allar vísa í sömu áttina. Þær mæla allar eindregið gegn því að standa að stjórnarskrárbreytingum með þeim hætti sem hér er verið að gera og þær mæla allar eindregið gegn þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru. Ég hef þegar bent á ummæli laganefndar Lögmannafélags Íslands. Umsagnaraðilar kvarta sáran yfir skömmum tíma sem þeir fá. Viðskiptaráð bendir á handbók forsætisráðuneytisins sem hæstv. forsætisráðherra veitir forstöðu um hvernig skuli standa að því að undirbúa lagafrumvörp og bendir réttilega á að það séu allar meginreglur þverbrotnar í þessu máli.

Í umræðunni á föstudagskvöld kom eitt athyglisvert í ljós í andsvari hæstv. forsætisráðherra því svo virðist vera sem hún hafi ekki, a.m.k. ekki á þeim tíma, gefið sér tíma til að kynna sér umsagnirnar. Hún virtist ekki hafa hugmynd um þann hluta þjóðarinnar sem þó er búinn að gefa sér tíma til að gefa umsögn. Hún hafði ekki hugmynd um þann hluta þjóðarinnar heldur ítrekaði að þjóðin kallaði eftir þessum breytingum.

Ef hæstv. forsætisráðherra og hinn naumi stjórnarmeirihluti vill ekki hlusta á okkur sjálfstæðismenn, vill ekki hlusta á þessa umsagnaraðila er rétt að benda á að til eru menn á vinstri kanti stjórnmálanna sem líka hafa bent á að þessi vinnubrögð séu ekki til fyrirmyndar. Gunnar Karlsson, prófessor í Háskóla Íslands, segir, með leyfi forseta:

„Eitt afbrigðið af villigötu leitarinnar að betra lýðræði er krafan um nýja stjórnarskrá.“

Þetta segir hann í grein í Fréttablaðinu í síðasta mánuði. Pétur Tyrfingsson, sem seint verður nú kallaður sjálfstæðismaður, bloggar um það að hann skilji ekki hvað menn séu að ræða um stjórnlagaþing og hvort þeir telji sig virkilega vera búna að ræða hugmyndina um það í þaula. Úlfar Þormóðsson, sem líka verður seint kallaður sjálfstæðismaður, skrifar grein um að þessi umræða um breytingu á stjórnarskránni sé furðuleg.

Síðan eru virtir lögfræðingar sem ekki er hægt að horfa fram hjá. Í nýjasta Tímariti lögfræðinga er leiðari, sem ég veit að hv. þm. Björn Bjarnason hefur vitnað í og ég ætla einnig að gera. Róbert Spanó segir í umræddum leiðara að fátt sé mikilvægara á þessum tímum sem við göngum í gegnum nú en að grundvallarreglur réttarríkisins séu virtar. Hann sem sé geldur varhuga við því að á umrótatímum sé farið að hrófla við mikilvægum atriðum eins og stjórnskipuninni.

Sama gerir Skúli Magnússon lögfræðingur og raunar héraðsdómari í leyfi frá því starfi. Hann segir í grein sem hann skrifaði nýverið í Fréttablaðið 4. mars undir fyrirsögninni Enginn veit hvað átt hefur … að eitt af því sem hafi verið teflt fram vegna efnahagshrunsins sé flýtimeðferð til breytinga á stjórnarskránni. Hann segir í lok þeirrar greinar, með leyfi forseta:

„Íslenska stjórnarskráin er ekki úrelt plagg þótt á henni séu ýmsir annmarkar sem fræðimenn og flestir aðrir sem til þekkja eru raunar að mestu sammála um hverjir séu og hvernig beri að mæta. Sjálfsagt er því að umræða um stjórnarskrána haldi áfram og sé leidd til lykta í opnu, lýðræðislega og stjórnskipulega réttu ferli.

Hins vegar er engin ástæða til að taka í skyndi stefnu út í óvissuna, gefa upp boltann fyrir allsherjarendurskoðun stjórnarskrárinnar með tilheyrandi fjárhagslegum kostnaði og ófyrirséðum afleiðingum. Efnahagskreppa og stjórnskipuleg ringulreið eru slæmur kokteill, svo ekki sé sterkar tekið til orða. Um stjórnarskrána gildir líkt og margt annað að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“

Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega kjarni málsins, kjarni þess af hverju sjálfstæðismenn halda uppi þeirri málsvörn fyrir stjórnarskrána sem hér er í gangi. Þetta er málsvörnin sem hinn naumi meiri hluti leyfir sér að kalla skrípaleik. Þetta er málsvörnin sem gert er lítið úr og haldið er fram að sé ómerkilegt málþóf.

Sagan mun dæma þessi ummæli hins nauma meiri hluta og vonandi ber hinn naumi meiri hluti gæfu til þess að taka í þær útréttu sáttarhendur sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur rétt.

Í nótt var lagt til að 2. umr. yrði frestað og málið tekið að nýju í nefnd svo finna mætti lausn á málinu. Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að álykta að Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að sýna það og benda á í mörgum ræðum hvaða atriði það eru sem hægt er að ná sátt um. Það er fyrst og fremst 79. gr. því með breytingu á henni getum við síðan þegar nýtt þing kemur saman gert allt hitt sem hér er verið að reyna að knýja fram með algerlega nýjum vinnubrögðum.

Ég skora á hv. þingmenn í hinum nauma stjórnarmeirihluta að taka í útrétta sáttarhönd og leita lausna á þessu.