136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:00]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Heldur var þetta nú rýrt hjá hæstv. iðnaðarráðherra. Ég tjáði mig ekki mikið um efni þessa frumvarps en það liggur fyrir að við sjálfstæðismenn erum sammála ákveðnum þáttum í breytingu á stjórnarskránni. Það liggur fyrir að við sjálfstæðismenn erum tilbúnir í þá vinnu að fara í breytingar á stjórnarskránni. Það liggur fyrir að við sjálfstæðismenn erum ekkert hræddir við þjóðaratkvæðagreiðslu og við erum ekkert hræddir við að færa valdið til þjóðarinnar. En við viljum hlusta á þjóðina. Við viljum fara að þeim lýðræðislegu leikreglum sem við spilum í dag sem eru umsagnir um mál sem nefndir fá, og það er hin lýðræðislega leið. Þegar umsagnir um mál eru á einn veg eins og um er að ræða í þessu máli er auðvitað okkar að verja það að tekið sé tillit til þeirra skoðana.

Ég vil ítreka áskorun mína til þingmanna Frjálslynda flokksins og Framsóknarflokksins í þessu máli. Þessir minnihlutaflokkar virðast heillum horfnir, algjörlega heillum horfnir. Utanríkisráðherra fylgir þar með. Að halda því fram hér að við séum að ganga erinda LÍÚ þegar hæstv. iðnaðarráðherra veit það manna best að margir af okkar helstu lögspekingum og helstu samtök í þessu landi (Gripið fram í.) hafa gert við þetta mjög alvarlegar athugasemdir, bæði efnislegar og gagnvart allri undirbúningsvinnu. Það er á þeim forsendum, hæstv. iðnaðarráðherra, sem ég mun standa hér, ef með þarf fram að alþingiskosningum, og verja þetta mál. Það er létt í þér núna, virðulegur ráðherra, en mundu það sem ég sagði við þig áðan, að betra er ólofað en illa efnt.