136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

dagskrártillaga.

[15:12]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Þúsundir manna á Íslandi, þúsundir fjölskyldna, hafa áhyggjur af því að þær séu að missa húsnæði sitt vegna greiðsluvanda. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að eitt mikilvægasta markmið hennar sé að koma í gegn lögum um greiðsluaðlögun vegna fasteignaveðlána.

Með þessari tillögu minni lagði ég til að við þingmenn mundum snúa saman bökum og koma okkur saman um að koma þessum heimilum til hjálpar frekar en að karpa um stjórnarskrána sem aðstoðar ekki heimilin í landinu og hefur ekkert með atvinnuuppbyggingu að gera. (SF: Skiptir máli … hæstv. forseta?)

Það er leitt að sjá að sumir hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn sem tala um það á tyllidögum að þeirra aðalmarkmið sé að slá skjaldborg um heimilin í landinu (Gripið fram í.) felli tillögu mína sem hefur það eitt að markmiði (Forseti hringir.) að hjálpa heimilunum í landinu. Það er sorglegt að (Forseti hringir.) sjá. [Háreysti í þingsal.]