136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

skýrsla fjármálanefndar breska þingsins um áhrif aðgerða bresku stjórnarinnar á fall íslensku bankanna.

[15:34]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur fyrir að taka þetta mál upp á hinu háa Alþingi. Í niðurstöðu rannsóknarnefndar fjárlaganefndar breska þingsins felast mikil tíðindi, eins og hér hefur verið farið yfir, þess efnis að bresk stjórnvöld hafi gerst virkir þátttakendur í því ferli sem fór af stað í haust með aðgerðum sínum. Í raun var um úthugsaða pólitíska árás á Ísland og íslenska hagsmuni að ræða og með henni ófrægðu Bretar Ísland og Íslendinga.

Það er umhugsunarvert í þessu ljósi, hæstv. forseti, að Bretar beittu svokölluðum hryðjuverka-, glæpa- og öryggislögum sínum. Sú löggjöf er þar í landi, eins og víðar á Vesturlöndum, afleiðing þess að löggjafarþing, sérstaklega í Evrópu og reyndar víðar, fóru offari í lagasetningu sinni í kjölfar hryðjuverkaárásanna í september 2001. Við skulum hafa það hugfast að það voru fleiri en Bretar sem fóru offari í þeirri lagasetningu.

Ég legg til, hæstv. forseti, að hið háa Alþingi eða í það minnsta hv. utanríkismálanefnd álykti af þessu tilefni um niðurstöðu bresku þingnefndarinnar og sendi með því skýr skilaboð frá Alþingi út í lönd, til Bretlands og inn í þær umræður sem þar eiga sér stað, m.a. í samningunum um Icesave-skuldbindingarnar. Það er verkefni okkar allra, jafnt stjórnmálamanna, athafnamanna sem annarra hér á landi, að endurreisa orðstír Íslands á alþjóðavettvangi. Það kallar á frumkvæði og málafylgju af hálfu íslenskra stjórnvalda bæði í samningum og samskiptum við önnur ríki og ekki síst í samskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.