136. löggjafarþing — 129. fundur,  7. apr. 2009.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:19]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Það er undir mjög sérstökum kringumstæðum sem við höldum eldhúsdagsumræður hér á þessu kvöldi. Íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum stórfellt efnahagshrun að undanförnu sem hefur haft gríðarleg áhrif á okkur öll, hvert einasta íslenskt heimili.

Það eiga að vera sjálfsögð mannréttindi að fólk hafi atvinnu. Eitt versta böl sem getur hent sérhvern einstakling er að missa atvinnuna, geta ekki nýtt starfskrafta sína sér til framfæris og landi okkar til framfara og heilla. Í því ljósi er það grafalvarleg staðreynd að 50–100 einstaklingar hafa að jafnaði misst atvinnuna á hverjum einasta degi síðustu vikur og mánuði. Að ríflega 18 þúsund Íslendingar séu í dag án atvinnu er óviðunandi ástand í íslensku samfélagi, ástand sem snertir hverja einustu fjölskyldu í landinu með einum eða öðrum hætti og eðlilegt að vaxandi krafa sé í samfélaginu um að stjórnvöld ráðist í róttækar aðgerðir til að bregðast við þeim vanda sem blasir við okkur þannig að við getum loksins farið að snúa úr vörn í sókn.

Spár gera jafnframt ráð fyrir því að tíu fyrirtæki muni verða gjaldþrota á dag næstu tólf mánuði, sem þýðir það að 3.500 íslensk fyrirtæki munu ekki lifa af næstu tólf mánuði. Fasteignaverð mun að öllu óbreyttu lækka sem þýðir á mæltu máli að eigið fé íslenskra húsnæðiseigenda mun stórlækka á meðan húsnæðisskuldir hækka og verði ekkert að gert muni tugþúsundir íslenskra heimila keyra í þrot sökum hækkandi skulda og lækkandi tekna. Það blasir því við okkur öllum, þ.e. þeim sem á annað borð vilja horfast í augu við raunveruleikann, að róttækra aðgerða er þörf til að koma til móts við vanda heimilanna í landinu.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var í upphafi þessa árs orðin óstarfhæf. Sú ríkisstjórn var ósammála í flestum grundvallaratriðum og í raun réð aðgerða- og stefnuleysi för þar á bæ. Við það var ekki búið og í því ljósi lögðum við framsóknarmenn fram tilboð um að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vantrausti á vettvangi þingsins.

Það var vissulega ekki gert án skilyrða. Í fyrsta lagi var krafa okkar sú að boðað yrði til kosninga eigi síðar en 25. apríl, eins og raunin er. Í öðru lagi lögðum við mikla áherslu á að boðað yrði til stjórnlagaþings þar sem íslenska þjóðin gæti komið að því að semja nýja íslenska stjórnarskrá, sú krafa er mjög hávær í íslensku samfélagi og þrátt fyrir einbeittan vilja sjálfstæðismanna hér á þingi munum við vonandi koma stjórnlagaþingi á fyrir kosningar, það er mín bjargfasta trú og von. Í þriðja lagi lögðum við framsóknarmenn áherslu á það að strax yrði komið til móts við vanda skuldugra heimila. Í fjórða lagi lögðum við til að komið yrði strax til móts við vanda atvinnulífsins, sem er mjög skuldsett líka. Mig langar að ræða hér örlítið, og ég held að það séu alveg efni til þess, um skuldsett fyrirtæki og heimili í þessu landi.

Vissulega er það svo að við framsóknarmenn höfum átalið núverandi ríkisstjórn fyrir að vera ekki með nægilega róttækar aðgerðir til að bregðast við þeim vanda sem blasir við okkur í efnahagslífinu. Ég ætla samt sem áður ekki að kasta rýrð á þau góðu mál sem hafa verið lögð fram á vettvangi þingsins en okkur framsóknarmönnum finnst einfaldlega ekki nægilega að gert til að forðast mögulegt kerfishrun í íslensku samfélagi sem mér finnst blasa við verði ekkert frekar að gert til að koma til móts við vanda heimila og fyrirtækja. Okkur sýnist að í raun og veru eigi ekki að koma til móts við heimilin í landinu fyrr en búið verði að keyra þau í þrot. Það er alröng nálgun að mínu mati og í raun og veru snýst þetta um mannlega reisn, að íslensk heimili verði ekki fyrst keyrð í gjaldþrot og síðan eigi að hjálpa fjölskyldunum í landinu.

Fyrir einum og hálfum mánuði lögðum við framsóknarmenn fram mjög róttækar tillögur í efnahagsmálum. Þær voru í 18 liðum. Því miður var það svo að einungis ein tillaga fékk aðallega umfjöllun og er mjög fræg orðin og snertir 20% niðurfærslu á skuldum heimila og fyrirtækja, sem er í raun og veru ekkert annað en leiðrétting á óðaverðbólgu síðustu 17–18 mánaða. Því miður voru stjórnmálamenn í öðrum flokkum í kappi við að koma fram á vettvanginn til þess að tala hugmynd okkar framsóknarmanna út af borðinu, því miður. Hugmynd þessi snýr að því að stöðva þá skriðu gjaldþrota og uppsagna sem hafin er í íslensku samfélagi og er fyrirsjáanleg.

Góðir Íslendingar. Til að gera sér fyrst grein fyrir alvarleika málsins þarf að hafa kjark til að bregðast við og við framsóknarmenn höfum haft þann kjark þrátt fyrir að á okkur hafi verið harkalega deilt fyrir þessar tillögur. Því miður hafa aðrir stjórnmálamenn lítinn gaum gefið öðrum tillögum okkar framsóknarmanna en við ráðfærðum okkur við færustu sérfræðinga á sviði efnahagsmála. Því miður er það svo að enginn annar stjórnmálaflokkur hér á Alþingi hefur lagt fram heildstæðar efnahagstillögur til að koma til móts við vanda heimila og fyrirtækja. (Gripið fram í: Rangt.) Það er því eðlilegt að stjórnmálamenn annarra flokka gagnrýni okkur harðlega til að reyna að ná vopnum sínum í þeirri umræðu.

Góðir Íslendingar. Við framsóknarmenn, svo að ég tali fyrir hinum 17 tillögunum sem við höfum lagt fram, höfum komið fram með hugmyndir, m.a. þess efnis að sérstökum uppboðsmarkaði verði komið á með gjaldeyri við Seðlabanka Íslands þar sem lífeyrissjóðirnir geta fengið að kaupa gjaldeyri og komið með fjármuni erlendis frá til að spýta fjármunum inn í íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Það er lífsnauðsynlegt. Við höfum líka lagt markaða stefnu og greinargerð fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að það beri að lækka stýrivexti Seðlabankans mun meira en um þetta eina prósentustig sem þeir voru lækkaðir um um daginn.

Við viljum stuðla að mannaflsfrekum framkvæmdum á vegum hins opinbera í samfélaginu þannig að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki. Við viljum veita fyrirtækjum skattafslátt vegna rannsóknar- og þróunarstarfs og við viljum umfram allt huga að fjölbreyttum atvinnuúrræðum sem nánar er hægt að sjá á heimasíðu Framsóknarflokksins.

Góðir Íslendingar. Mig langar í þessari umræðu að nefna sérstaklega vanda námsmanna, sem við framsóknarmenn höfum ítrekað tekið upp hér á vettvangi Alþingis á undangengnum vikum. Það stefnir í að 13 þúsund háskólanemar muni því miður ekki eiga kost á atvinnu þegar að sumarmánuðum kemur. Þá veltum við því fyrir okkur hvernig stendur á því að Nýsköpunarsjóður námsmanna, sem styrkti 161 verkefni til handa námsmönnum árið 2003, skyldi einungis hafa úthlutað 79 styrkjum árið 2008. Hvernig í ósköpunum stendur á því að stjórnvöld hafa ekki hugað að því á erfiðum tímum að fjölga þeim úrræðum sem Nýsköpunarsjóður námsmanna hefur veitt. Við framsóknarmenn leggjum til að þeim úrræðum verði fjölgað þegar 13 þúsund háskólastúdentar standa uppi atvinnulausir.

Herra forseti. Mig langar að lokum að segja að Framsóknarflokkurinn hefur treyst ungu fólki til forustu, fólki sem vill hafa áhrif á það hvernig við byggjum íslenskt samfélag til framtíðar, samfélag sem mun rísa upp að þrengingum loknum. Við viljum öfluga velferðarstjórn að loknum næstu alþingiskosningum, velferðarstjórn sem gerir sér grein fyrir mikilvægi öflugs atvinnulífs. Slík stjórn verður að okkar mati ekki mynduð án tilstuðlunar Framsóknarflokksins.

Kosningarnar fram undan eru þær mikilvægustu í lýðveldissögunni. Þá verður kosið um lausnir og aðgerðir, ekki aðgerðaleysi, og þá verður kosið fyrst og fremst um breytingar og raunverulega framtíðarsýn og stjórnmálaflokkar verða rukkaðir um það hvaða framtíðarsýn þeir hafa í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Við framsóknarmenn viljum sjá raunveruleg úrræði fyrir okkur öll. — Góðar stundir.