136. löggjafarþing — 129. fundur,  7. apr. 2009.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:41]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það er forgangsatriði að skapa atvinnu í landinu, það er ekkert brýnna í dag en að auka atvinnuna. Næg atvinna er það sem hjálpar okkur mest til að komast upp úr kreppunni. Með aukinni atvinnu aukum við tekjur ríkissjóðs og fækkum atvinnulausu fólki. Með sama áframhaldi, með 18.000 manns atvinnulausa, verður Atvinnuleysistryggingasjóður tómur í september og þá fara atvinnulausir beint í ríkisfjármálin af fjárlögum. Það er til mikils að vinna að skapa atvinnutækifæri í landinu og við í Frjálslynda flokknum höfum sagt skýrt hver markmið okkar eru í þessum efnum og öðrum málum sem eiga að hjálpa okkur að komast út úr kreppunni.

Við gefum okkur að atvinnutækifærin megi auka með aðgerðum. Eftir það má búast við að tekjustreymi til ríkisins taki verulegum breytingum til hækkunar — og ekki er vanþörf á. Þeir sem fá vinnu fara að greiða gjöld og eyða fjármunum sem koma inn í virðisaukann. Þegar við tölum um atvinnutækifæri þýðir ekki að vera með mikla tilfinningasemi, við verðum að taka þá atvinnu og tekjuöflun sem býðst, hvort sem það er Helguvík og Bakki við Húsavík, kvótaaukning í þorski eða önnur stóriðja. Ég er ekki talsmaður þess að byggja álver í hverri höfn en allt sem getur skapað atvinnu næstu 2–3 árin er forgangsatriði í mínum huga til að komast út úr kreppunni.

Hvað varðar þorskinn verðum við að leyfa okkur meiri veiðar næstu 2–3 árin. Nú árar vel í lífríki sjávar með heitum sjó og mikilli fiskgengd og við erum tökum enga sérstaka líffræðilega áhættu með þorskinn þó að við aukum veiðina um 100.000 tonn. Það væru um 260.000 tonn á næsta ári sem er mun minna en við höfum veitt að meðaltali í 80 ár, á hverju einasta ári að meðaltali í 80 ár — sá þorskafli er 380.000 tonn, frá 1920 til ársins 2000.

Sú aukning þýðir að við tökum e.t.v. 40 milljarða af nýjum tekjum inn í þjóðfélagið og ekki má heldur gleyma því að verð á sjávarafurðum hefur lækkað. Við getum ekki bætt okkur upp þann skaða nema með því að afla meira, sá afli er um leið atvinnuskapandi og hefur víða áhrif til aukinna umsvifa í þjónustu- og hliðargreinum sjávarútvegsins. Við getum eflt þorskeldið og kræklingaeldi víða í fjörðum landsins. Það mun fjölga störfum og gefa tekjur.

Það á að auka við í ferðaþjónustunni og þar eigum við mörg sóknarfæri sem fjölga störfum. Við gætum lækkað raforkuverð fyrir ylræktina og þar með skapað störf við ræktun grænmetis, við getum aukið kornræktina og sparað okkur fóðurkaup og einnig nýtt kornið til brauðgerðar og bökunar í stað þess að flytja inn korn. Allt skapar þetta atvinnu sem okkur er nauðsynleg til að þjóðin rétti úr kútnum. Við viljum upp úr kreppunni í Frjálslynda flokknum.

Við búum við gott matvælaöryggi og eigum að standa vörð um 10.000 störf í landbúnaði og úrvinnslu afurða. Við teljum ekki í Frjálslynda flokknum að ESB-aðild sé forgangsmál í nútímanum. Við höfum í mörg ár bent á að verslunarkerfi kvótans væri ekki hagkvæmt fyrir okkur. Það er heldur betur að koma í ljós — og við höfum allan tímann haft rétt fyrir okkur.

Skuldir sjávarútvegsins hafa vaxið úr 95 milljörðum árið 1995 í yfir 500 milljarða í dag og sum sjávarútvegsfyrirtækin eru í rauninni tæknilega gjaldþrota. Við höfum sagt að í núverandi stöðu, þegar þjóðin á bankana og skuldirnar eru að stærstum hluta í opinberri eigu, eigum við að nota tækifærið og innkalla kvótann, taka eitthvað af skuldunum á móti og setja kvótann inn í auðlindasjóð sem þjóðin á. Innan nokkurra ára verður þetta fyrirkomulag farið að gefa ríki og sveitarfélögum tekjur.

Með þessum aðgerðum mundum við vissulega létta á sjávarútveginum en það mun taka okkur einhver ár að borga skuldirnar niður. Fyrir framtíðina skiptir samt öllu máli að þjóðin eigi auðlindirnar. Útgerðin þarf að hafa nýtingarrétt til fiskveiða hvaða stýrikerfi sem við notum. Við ætlum ekki að setja útgerðina í landinu á hausinn. Það hefur aldrei verið markmið okkar í Frjálslynda flokknum. Við viljum hins vegar taka burt veðsetningarréttinn á óveiddum fiski í sjó, taka hann burt frá útgerðarmönnum. Við viljum einnig taka burt leiguréttinn á óveiddum fiski í sjó og við viljum enn fremur taka burt sölurétt útgerðarmanna á óveiddum fiski í sjó svo alveg sé talað skýrt. Þetta þrennt áttu þeir reyndar aldrei að fá og það eru mestu mistök sem við höfum gert í stjórn fiskveiða á Íslandi.

Í mótmælafundum vetrarins kom skýrt fram vilji fólksins fyrir breytingum á kvótalögunum sem hefur aldrei verið meiri en í dag. Hvað var þjóðin að segja okkur í mótmælum úti á Austurvelli? Meðal annars: Burt með kvótakerfið og frjálsan framsalsrétt útgerðarmanna.

Hverjir hafa harðast barist gegn þessu kerfi? Frjálslyndi flokkurinn. Í 10 ár höfum við varað þjóðina við hvert stefnir með þetta kerfi. Það á að stefna að því að allir borgi sanngjarnt leiguverð og gefa jafnframt frelsi til handfæraveiða. Nýliðar verða að geta byrjað í þessari atvinnugrein.

Við í Frjálslynda flokknum höfum alltaf þurft að fara í mikla sókn fyrir alþingiskosningar. Tveimur mánuðum fyrir kosningarnar 2003 mældist flokkurinn með 1,4% og við rifum okkur upp úr þeim tölum. Það sama var upp á teningnum fyrir kosningarnar 2007. Við vorum með lága mælingu í skoðanakönnunum en allt aðra tölu eftir kosningar. Enn einu sinni mælumst við með lítið fylgi, en það er enginn efi í mínum huga að við munum rífa okkur upp úr þeim tölum. Deilumál innan flokksins eru að baki og nú keyrum við áfram með staðfestu í okkar stefnumálum eins og ávallt.

Við notuðum fyrir kosningarnar 2007 auglýsingu sem margir sögðu að væri vitleysa. Auglýsingin var svohljóðandi: Verður þú gjaldþrota? Við vöruðum við verðtryggingu lána. Nú er verðtrygging ofarlega í umræðunni og staðan er sú að þeir sem eru með verðtryggð lán á eignum eru farnir að horfa á það að lánin eru komin langt upp fyrir söluverð — enda lækkar fasteignaverðið. Þetta er alvarlegt mál og við leggjum til að verðtrygging lána verði afnumin frá og með síðustu áramótum. Við leggjum til að verðtrygging umfram 5% verði ekki innheimt af fasteignalánum heldur settar inn á biðreikning sem leyst verður úr með almennum hætti. Með þessu væri slegin skjaldborg um heimilin, þ.e. ef Alþingi vildi afgreiða málið fyrir þinglok.

Frjálslyndi flokkurinn er búinn að kynna framboðslista sína fyrir komandi kosningar og á listunum er sómafólk sem ég er mjög stoltur af, öflugt og gott fólk og margt nýtt fólk. Við erum aðeins þrír sem höfum áður setið á þingi á þessum vetri.

Við höfum vissulega verið með storminn í fangið en við förum af fullum krafti í kosningabaráttuna og að kynna málin okkar meðal fólksins í landinu. Ég kvíði ekki undirtektunum, enda hefur Frjálslyndi flokkurinn verið staðfastur í málflutningi sínum öll árin sem hann hefur starfað, aldrei hvikað frá því hvert kvótakerfið mundi leiða okkur, aldrei hvikað frá því hvert verðtryggingin gæti leitt fólk og það hefur sýnt sig að við höfum haft rétt fyrir okkur í þessum stóru málum sem skipta þjóðina miklu máli. Við höfum aldrei hvikað frá því að taka upp frítekjumark gagnvart tryggingabótum fyrir eldri borgara og öryrkja. Við lögðum það mjög snemma til, fyrir mörgum árum. Það er nú orðið að veruleika en út af stendur það mál sem við erum með hér í þingi, að næst komi frítekjumark á venjulegar lífeyristekjur úr lífeyrissjóðum. Nú er full þörf á því.

Það verður erfitt verk að koma saman fjárlögum næsta árs. Það þarf virkilega að vanda það verk. Ég hef sagt að ekki væri hægt að skera niður í fjárlögunum upphæð sem færi yfir 30 milljarða kr., ég sé ekki fyrir mér hvernig við ættum að gera það. Það mun þurfa að afla nýrra tekna og það er það verk sem við þurfum fyrst og fremst að snúa okkur að. Við höfum barist fyrir því, og flytjum þess vegna mál með öðrum stjórnmálaflokkum hér á þingi þar að lútandi, að auðlindir þjóðarinnar verði í þjóðareign og styðjum það ákvæði að þær megi ekki láta varanlega af hendi eða selja.

Við erum sammála því að þjóðin eigi að fá að kjósa um stjórnarskrárbreytingar. Við erum einnig sammála því að þjóðin eigi að fá að kjósa um einstök deilumál og mikilvæg mál og við erum enn fremur sammála því að þjóðin eigi að fá að koma að endurskoðun stjórnarskrárinnar með stjórnlagaþingi. Um þetta standa nú miklar deilur hér á Alþingi og Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið uppi hörðu andófi gegn þessum réttlætismálum. Ekki veit ég hvort það á að endast fram að kosningum en það endist örugglega fram yfir páska.

Hæstv. forseti. Frjálslyndi flokkurinn vill fara út úr þröngri stöðu þjóðarbúsins með sókn í framleiðslu til lands og sjávar. Engin tækifæri má láta ónotuð í auðlindanýtingu þjóðarinnar og víst er að leiðin út úr vandanum er ekki að fara einhliða í aukna skattlagningu eða einhliða niðurskurð í velferðarkerfinu. Atvinna og tekjur eru það sem við verðum að leita að, hæstv. forseti. — Góðar stundir.