136. löggjafarþing — 129. fundur,  7. apr. 2009.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:51]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Hin alþjóðlega efnahagskreppa og hrun helstu fjármálafyrirtækja landsins gera það að verkum að fram undan eru verulegir fjárhagslegir erfiðleikar fyrir ríkissjóð, fyrirtækin og heimili landsins. Á skammri stundu gufaði góðærið upp og reyndist það að nokkru leyti byggt á erlendu lánsfé og skuldasöfnun. Allt of margir höfðu gleymt þeim gömlu og góðu sannindum að ganga hægt um gleðinnar dyr.

Vissulega er vandinn mikill sem við blasir en það ber að varast að mála myndina dekkri litum en efni standa til. Þeir eru margir á vettvangi, innlendir sem erlendir, sem bjóða töfralausnir eða boða svartnætti. Það er mikil ástæða til að vara við slíkum málflutningi. Hann gerir bara illt verra

Aldrei hefur verið meiri ástæða til þess en nú að þjóðin haldi ró sinni og takist á við erfiðleikana af þolinmæði og þrautseigju. Leiðin út úr erfiðleikunum hefur verið mörkuð með samningum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er vissulega álitamál í efnahagsstefnunni en valin var sú leið sem talin var sársaukaminnst.

Þeir sem taka að sér að stjórna landi og þjóð á næstu árum verða að hafa þrek til þess að fylgja markaðri stefnu og taka þær óvinsælu ákvarðanir sem eru óhjákvæmilegar, um niðurskurð ríkisútgjalda og hækkun skatta. Aðrar leiðir eru einfaldlega verri til lengri tíma litið. Það þarf að rifa seglin um tíma, draga úr þjónustu og spara, borga niður skuldir erlendis og koma á jafnvægi í viðskiptum við útlönd.

Á tveimur árum er hægt að komast út úr mestu erfiðleikunum og þá fara lífskjörin að batna á nýjan leik. Það verður mikið atvinnuleysi þetta árið og það næsta. Það verður ekki umflúið. Einmitt þess vegna verður að nýta hvert tækifæri til atvinnuuppbyggingar sem gefst og láta hvorki fordóma né bábiljur ráða för. Framganga atvinnumála hefur úrslitaáhrif á það hversu fljótt þjóðin kemst í gegnum erfiðleikana.

Ég minni á frumvarp mitt sem gerir atvinnulausum kleift að auka hæfni sína á vinnumarkaði með því að stunda nám í allt að tvö ár og halda atvinnuleysisbótum á meðan. Það mun gagnast best þeim sem eru án viðurkenndrar starfs- eða framhaldsskólamenntunar, þeir eru 28% af vinnumarkaðnum, 45.000 manns. Um síðustu áramót voru tæp 60% atvinnulausra einungis með grunnskólamenntun.

Það hjálpar engum að halda því fram að óhjákvæmilegt sé að fella niður skuldir eða frysta höfuðstól hjá þorra skuldara — eða að verðtryggingin sjálf sé vandinn. Það er svo sem hægt að banna verðtryggingu en óverðtryggðu vextirnir verða ekkert lægri og greiðslubyrðin mun frekar vaxa við það en hitt. Það er hægt að afskrifa skuldir í stórum stíl en það þýðir að aðrir þurfa að borga, skattgreiðendur, lífeyrisþegar eða sparifjáreigendur. Skuldir hverfa ekki, það þarf alltaf einhver að borga.

Stjórnvöld hafa í meginatriðum gripið til skástu aðgerðanna fyrir heimilin með því að laga greiðslubyrði af skuldum að greiðslugetu á hverjum tíma og gera fólki kleift að halda húsnæði sínu. Fram undan er tímabil þar sem líklegt er að skuldir og vextir muni lækka vegna verðhjöðnunar og þegar frá líður mun kaupmáttur vaxa að nýju og verð á íbúðarhúsnæði hækka í kjölfarið.

Rétt er að benda á að frá ársbyrjun 2004 hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 83% en neysluverðsvísitala hefur aðeins hækkað um 45% á sama tíma. Staðreyndin er sú að í mörg ár var verðtryggingin af lánunum minni en hækkunin á fasteignunum. Sama á við um þróun launa. Þetta sýnir að vandi heimilanna er ekki einhlítur og alls ekki einfaldur. Sem betur fer eru mörg heimili tiltölulega vel sett þrátt fyrir verðbólguna síðustu 12 mánuði.

Evran og Evrópusambandið verða til umræðu á næstu árum en menn skulu muna að ekkert fæst ókeypis í viðskiptum við Evrópusambandið frekar en við aðra. Þegar EES-samningurinn var gerður á sínum tíma var því lýst yfir að Íslendingar hefðu fengið allt fyrir ekkert. Eftir Icesave-málið vitum við betur. Ég spurði forsætisráðherra að því fyrir skömmu hver hefði verið ávinningur þjóðarbúsins af samningnum. Sérstaklega spurðist ég fyrir um ávinninginn af fjármagnsfrelsinu sem komst á með honum. Svarið er athyglisvert. Ekkert liggur fyrir um mögulegan ávinning. Engar tölur liggja fyrir og engin úttekt. En ætli það sé ekki óumdeilt að frelsi fjármagnsins var of mikið og þjóðinni fjárhagslega skaðlegt?

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Það er ekkert mikilvægara næstu tvö árin en að þjóðin haldi ró sinni og staðfestu og að stjórnvöld hafi þrek til að vinna það verk sem þarf. Þá komumst við út úr mestu erfiðleikunum fyrr en ella. Ef komandi ríkisstjórn guggnar og landsmenn missa kjarkinn er voðinn vís. Þá tapa allir. Þess vegna verður mér svo tíðrætt um efnahagsmálin. Við eigum svo mikið undir því að vel takist til. Efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar er í húfi.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.