136. löggjafarþing — 129. fundur,  7. apr. 2009.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:33]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Það dylst engum að íslenskt samfélag á í miklum efnahagsvanda. Það er því mikilvægt að nýta allar færar leiðir út úr þessum erfiðleikum. Samþætta þarf aðgerðir til að tryggja afkomu heimilanna, auka atvinnu og tekjur en jafnframt þarf að draga úr ríkisútgjöldum.

Við stöndum frammi fyrir nýrri forgangsröðun þar sem hafa verður að leiðarljósi hag barnafólks, heimilanna, fólks sem á við fötlun að stríða, eldra fólks og sjúkra og við þurfum að hafa að leiðarljósi réttlætið, jafnréttið og lýðræðið. Samfylkingin hefur lagt áherslu á að byggja brú yfir erfiðleikana, brú sem hjálpar okkur að komast á rétta braut að nýju. Við höfum kallað þetta velferðarbrú og byggjum á velferð og vinnu. Ómetanlegar auðlindir eiga eftir að nýtast okkur vel í endurreisninni hvort sem það er mannauðurinn og menntunin, heitt eða kalt vatn, orka jarðar, sjávarauðlindir eða hreinleiki og fegurð íslenskrar náttúru og íslenskrar matvöru. Atvinna sem sparar eða skapar gjaldeyri, hefðbundnu undirstöðuatvinnuvegirnir, sjávarútvegur og landbúnaður, ásamt alls kyns iðnaði og ferðaþjónustu eru nú að nýju gulls ígildi. Tryggja þarf eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sjávar með skýru ákvæði í stjórnarskrá. Sjálfstæðisflokkurinn berst þessa dagana með málþófi gegn því ákvæði þó að sá flokkur hafi lofað því í stjórnarsáttmálum síðustu tveggja ríkisstjórna.

Endurskoða þarf úthlutun aflaheimilda með aukið réttlæti í huga. Samfylkingin vill leita sátta um uppstokkun á fiskveiðistjórnarkerfinu til að auka réttlæti og tryggja rétt íbúa sjávarbyggðanna til að njóta afraksturs auðlindarinnar. Sömuleiðis vill Samfylkingin blása til sóknar í íslenskum landbúnaði, losa þarf um ýmsar hömlur eða efla íslenska matvælaframleiðslu, m.a. með nýsköpun og fullnýtingu afurða og framleiðslu á hreinum hágæðavörum. Sóknarfærin eru fjölmörg. Samfylkingin lagði mikla áherslu á að efla sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og hátækniiðnað í síðustu kosningum. Iðnaðarráðherra hefur fylgt því eftir m.a. með rannsóknar- og þróunarstyrkjum en jafnframt þarf að leggja áherslu á skattaívilnanir slíkra verkefna og veita fjárhagslega hvata til að fjárfesta í þessum greinum. Það verður áfram að leggja rækt við ferðaþjónustuna sem verið hefur í örum vexti undanfarin ár. Efla þarf markaðssetningu, lengja ferðamannatímann og bæta aðstöðu á fjölsóttum ferðamannastöðum.

Það gefst ekki tími til að ræða allt það sem gert hefur verið. Það gefst ekki tími til að ræða allar þær aðgerðir sem eru í farveginum eða eru fram undan til að bregðast við því atvinnuleysi sem við búum við. Samfylkingin gerir sér grein fyrir vandanum og ábyrgðinni á því að finna bestu leiðirnar út úr vandanum fyrir heimili og fyrirtæki. Við verðum að tryggja að okkar unga og efnilega fólk geti stundað vinnu við hæfi sem víðast á landinu. Leysa þarf vandann varðandi sumarvinnu námsmanna. Samfylkingin fer í kosningar með heildstæða stefnu, fjölda úrræða sem þegar hafa verið borin fram og munu verða borin fram undir traustri og ágætri stjórn okkar ágæta forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. — Lifið heil.