136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

mál á dagskrá, lengd þingfundar o.fl.

[10:02]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Dagskrá undanfarinna daga hefur orðið tilefni til þess að maður hefur undrast það hvernig forseti hefur raðað upp dagskrá. En það er ekki síður í dag þegar búið er að ryðja út af dagskrá þingsins þeim hefðbundnu liðum sem við byrjum alltaf á, sem eru annaðhvort óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra — en það hefði verið mjög vel við hæfi núna á síðasta degi fyrir páska að geta beint spurningum til hæstv. ráðherra og í öðru lagi ef ráðherrar víkjast undan því að svara spurningum þingmanna þá hefði verið í lófa lagið fyrir hæstv. forseta að hafa á dagskrá liðinn Störf þingsins.

Það er gert er ráð fyrir því alla þingdaga að við byrjum annaðhvort á liðnum Óundirbúnar fyrirspurnir eða Störf þingsins. Þess vegna vil ég inna hæstv. forseta eftir því hvað hann hyggist fyrir í áframhaldandi þinghaldi. Er hann að umturna öllum okkar venjum og þingsköpum með stjórn sinni?