136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

mál á dagskrá, lengd þingfundar o.fl.

[10:03]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég átti von á því að fundir mundu byrja í dag annaðhvort með umræðu um störf þingsins eða öllu heldur og mun frekar jafnvel óundirbúnum fyrirspurnum því það er full ástæða til að beina fyrirspurnum til hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég átti von á því að hann yrði hér í dag þar sem hann var ekki á mánudaginn var. Í dagblöðunum í dag eru ýmsar fréttir sem þörf er á að bera undir hæstv. ráðherra og m.a. eru fréttir á forsíðu Fréttablaðsins í dag um lífeyrissjóðina sem hugsanlega munu koma að fjármögnun á byggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss. Síðan höfum við þingmenn ítrekað gengið eftir því hvað líði fjárlögum, líði áætlun um niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni. Það hefur verið afar fátt um svör og það kemur fram í dagblöðunum í dag að á fundi með heilbrigðisstarfsmönnum í gær hafi engin svör fengist um áætlanir ráðherra um hvernig standa eigi að niðurskurði í heilbrigðisþjónustunni og jafnvel eru upplýsingar um hækkun lyfjakostnaðar. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég sakna þess að fá ekki tækifæri í dag til að beina fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra.