136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

mál á dagskrá, lengd þingfundar o.fl.

[10:07]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka það að forseti hyggist hafa eitthvert samráð við þingflokksformenn um það hvernig eigi að ljúka þinghaldinu fyrir páska. Það er þá kannski von til þess að fá fréttir af því hjá forseta á þeim fundi hvernig hann hyggist yfir höfuð ljúka þessu þinghaldi eða er hæstv. forseti að gefa það í skyn að hann muni ljúka þinghaldi á þessum degi eða þessum sólarhring? Það væri áhugavert að fá að vita það.

En ég ítreka að ég hefði talið að það væri við hæfi að geta borið fram fyrirspurnir til hæstv. ráðherra sem hafa sýnt þinginu þann heiður að mæta í þingsalinn, þ.e. hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra. En það eru ekki aðrir sem hafa sýnt sig hér og hafa ekki verið að sýna sig þótt þannig standi á hjá þessum hæstv. ráðherrum að mæta núna, þeir hafa ekki verið mjög duglegir fram að þessu en (Forseti hringir.) ég vil hrósa þeim núna.