136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[10:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég skal bara játa að mér er það alls ekki almennilega ljóst hvað þetta þýðir nákvæmlega. Hins vegar hef ég tekið eftir því í umræðum sem hafa farið fram um þessi mál, sérstaklega af hálfu þeirra sem hafa verið að tala fyrir þessu frumvarpi, sem eru ábyrgðarmenn málsins með einum eða öðrum hætti, að þeir hafa mjög verið að vísa í þetta ákvæði sem m.a. er orðað einhvern veginn í lögunum um stjórn fiskveiða að verið sé að vísa til þess að þetta muni og eigi að taka til ákvæða sem lúta að réttindum úr hafinu.

Þetta er ef til vill enn eitt dæmið um það hversu málið er óljóst. Þetta rökstyður það að kannski er ekki alveg rétt hjá prófessor Sigurði Líndal, þetta sé ekki merkingarlaust en hins vegar sé þetta algjörlega óljóst, alveg eins og flestir fræðimenn hafa kveðið á um. Það gerir alvöru málsins enn þá meiri ef það er svo að málið sé óljóst og opið fyrir túlkun.

Hins vegar tek ég eftir því að einhvers staðar í þessum skjölum, hvort sem það er í frumvarpinu eða í greinargerðinni, ég man það ekki alveg, er mjög vísað til laga til að skýra þetta mál, þ.e. lögin um þjóðlendurnar. Við vitum hvernig þau mál hafa þróast. Þar hefur verið stanslaus ófriður þótt menn hafi talið á þeim tíma að þau væru vel úr garði gerð og ætlunin væri að reyna að skýra eignarréttinn. En við sjáum hvað svona mál eru gríðarlega vandmeðfarin og þess vegna, að mínu mati, undirstrikar þetta nauðsyn þess að menn vandi sig við málið. Það er ekki þannig að menn hafi hreint og klárt svar við þessu.

Í áliti meiri hlutans kemur fram að ákvæðinu sé ekki ætlað að hrófla við beinum eða óbeinum eignarréttindum sem menn hafa þegar öðlast á náttúruauðlindum. Það er ekki verið að undanskilja fiskveiðiauðlindina í því sambandi. Ljóst er að eins og fiskveiðirétturinn hefur þróast felur hann í sér, ég hygg að það sé algerlega óumdeilt mál, óbeinan eignarrétt vegna þess að með honum er stofnað til eða búinn til atvinnuréttur sem eðli málsins samkvæmt hefur óbeina (Forseti hringir.) eignarréttarlega skírskotun.