136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[10:58]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þeim umræðum sem hér hafa farið fram um 1. gr. þessa frumvarps sem staðfestir það sem ég hef sagt að það sé ákaflega hættulegt að festa í lög, og þeim mun frekar í stjórnarskrá, ákvæði sem er jafnóljóst og fram hefur komið í þeim ræðum sem við vorum að hlýða á. Þegar ég flutti síðustu ræðu mína, virðulegi forseti, las ég úr fyrirlestri eða grein eftir hæstv. dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, þar sem hún varar einmitt við því að staðið sé að lagasetningu með þeim hætti sem hér hefur verið lýst og hvetur til þess að vandað sé til lagasetningar og nefnir það m.a. að hér á Alþingi hafi þingsköpum verið breytt til að tryggja betra samræmi og betri lagasetningu.

Virðulegi forseti. Hér fór fram í gær eldhúsdagsumræða og í blöðum má lesa frásagnir af því hvað mönnum þótti þar fréttnæmast. Ég sé að í Fréttablaðinu er birt frétt um þessar umræður undir fyrirsögninni: „Þingið þarf að afsala sér valdi tímabundið“. Í fréttinni segir, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra segir að þingið ráði ekki við að breyta stjórnarskránni. Þess vegna þurfi það að framselja stjórnarskrárvaldið tímabundið til þjóðarinnar. Fjármálaráðherra skilur ekki í hverju andstaða sjálfstæðismanna er fólgin.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Þar sem Alþingi hefur gert margar árangurslitlar tilraunir til að breyta stjórnarskránni á síðustu 40–50 árum er nauðsynlegt að taka stjórnarskrárgjafarvaldið tímabundið úr höndum þingsins og færa til þjóðarinnar.

Þetta segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, sem telur að aðeins með skipan stjórnlagaþings fáist ný stjórnarskrá sem sátt geti náðst um. Á fundi með blaðamönnum í gær tók Jóhanna sem dæmi að breyting á kosningaákvæðum stjórnarskrárinnar mætti ekki vera í höndum þingmanna.

„Það eru þeirra hagsmunir hvernig kjördæmaskipanin er og það mál á að mínu viti hvergi heima nema á stjórnlagaþingi.“

Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra gefa lítið fyrir mýgrút athugasemda fræðimanna og annarra um að stjórnarskrármálið sé unnið í of miklum og óeðlilegum flýti. Ljóst hafi verið við upphaf ríkisstjórnarsamstarfs Samfylkingarinnar og Vinstri grænna að ráðast ætti í endurskoðun stjórnarskrárinnar, auk þess sem fjallað hafi verið um efnisatriði breytinganna — utan ákvæðisins um stjórnlagaþing — í mörg herrans ár.

Steingrímur bendir á að talsverður hluti athugasemdanna hafi beinst að málsgreinum greinarinnar um auðlindaákvæðið sem nú, að tillögu meiri hlutans, hafi verið fjarlægðar úr frumvarpinu. Þær eigi því ekki lengur við.

Steingrímur ræddi um andstöðu sjálfstæðismanna við stjórnarskrárbreytingarnar og kvaðst ekki skilja í hverju hún væri fólgin. Hann hefði setið lengi undir ræðum þeirra — sem Jóhanna sagði endurtekningar og málþóf — í þeirri von að geta fræðst. Það hefði gengið illa. „Þrátt fyrir allan þennan málflutning er mér enn ekki ljóst hvers vegna þessi andstaða er af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Vilja menn ekki sameign á náttúruauðlindunum? Vilja menn ekki beint lýðræði? Vilja menn ekki að þjóðin kjósi sjálf um stjórnarskrárbreytingar í sjálfstæðri kosningu? Geta menn ekki hugsað sér að þjóðin kjósi sér sitt eigið stjórnlagaþing?“ spurði Steingrímur.“ Og tilvitnun í þessa frétt lýkur hér með, virðulegi forseti.

Ég tel að þessi ummæli forráðamanna ríkisstjórnarinnar sýni að það er nauðsynlegt að halda þessum umræðum áfram. Ég hef ekki orðið var við að hæstv. fjármálaráðherra hafi verið hér og hlustað á umræður og geti lagt dóm á það hvað fram hafi komið í máli okkar sjálfstæðismanna. Það er augljóst að hæstv. forsætisráðherra gerir sér enga grein fyrir því um hvað þessar umræður hafa snúist ef hún telur að sátt náist á þessu þingi um að þingið afsali sér valdi þótt ekki sé nema tímabundið. Við munum ekki standa að því, sjálfstæðismenn á þingi, að Alþingi afsali sér valdi. Við munum ekki standa að því að þingið verði niðurlægt með þeim hætti. Við munum ekki standa að því að þingmenn brjóti drengskaparheit sitt þegar þeir setjast inn á þingið, drengskaparheit við stjórnarskrána, með því að afsala Alþingi þessu valdi.

Ef svo er litið á af forustumönnum ríkisstjórnarinnar að málum sé þannig háttað að samstaða verði um að Alþingi afsali sér valdi þótt ekki sé nema tímabundið af því að þingmenn séu ekki færir um að ákveða hvernig kjördæmaskipaninni sé háttað finnst mér það dæmalaust og ótrúlegt þekkingarleysi og það er þá ljóst að nauðsynlegt er að halda þessum umræðum áfram. Það verður að koma hæstv. ráðherrum, flutningsmönnum frumvarpsins, í skilning um það um hvað gagnrýni okkar snýst. Ég held að þeir ættu þá að sýna þinginu þann heiður meðan það hefur þetta vald að sitja og hlusta á okkur tala og reyna að verja þetta vald meðan það er í höndum þingsins en ekki láta eins og það sé sjálfsagt og sjálfgefið að Alþingi afsali sér þessu valdi — og að tala á þann veg að þetta sé eins og hver annar sjálfsagður hlutur sýnir algert skilningsleysi og þekkingarleysi enda er það vitað að þessir hæstv. ráðherrar sýna þessum umræðum enga virðingu og eru ekki í neinum færum til að dæma um það hvað hér er sagt og hvað hér er að gerast.

Ég vil líka, hæstv. forseti, fá að vitna í ummæli eftir Ögmund Jónasson heilbrigðisráðherra sem hann skrifaði á vefsíðu sína 21. janúar 2007 og fjallaði þar um það sem kallað er málþóf. Ég leyfi mér að lesa það, með leyfi virðulegs forseta:

„Nokkuð hefur verið talað um málþóf á Alþingi í tengslum við stjórnarfrumvarpið um RÚV ohf. Þeir sem raunverulega hafa fylgst með framvindunni vita að þetta er ósanngjörn ásökun. Í fyrsta lagi er það ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn sem stendur í vegi fyrir því að samkomulag náist um framtíð Ríkisútvarpsins. Í öðru lagi er rétt að minna á að stjórnarandstöðunni hefur í tvígang tekist einmitt með langri umræðu að koma í veg fyrir vanhugsuð og stórskaðleg stjórnarfrumvörp um Ríkisútvarpið. Stjórnarandstöðunni tókst einnig að fresta gildistöku vatnalaganna með langri umræðu. Það þýðir að þjóðin fær nú í vor tækifæri til að kjósa um þann umdeilda lagabálk.

Enda þótt þingmenn VG legðu sig alla fram um að koma í veg fyrir Kárahnjúkaslysið tókst ekki að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál. Þar var VG eitt á báti og mátti ekki á endanum við margnum. Iðulega hefur flokknum þó tekist með harðfylgi á þingi að hafa jákvæð áhrif á umdeild þingmál. Stundum hefur það kallað á langa umræðu. Hinu má svo ekki gleyma að um yfirgnæfandi meiri hluta þingmála ríkir breið sátt og fer lítið fyrir umræðu um þau utan þess sem gerist á fundum viðkomandi þingnefnda.

Það eru umdeildu málin sem kalla á athygli. Langar umræður á Alþingi eru einmitt oftar en ekki tilraun til að ná eyrum þjóðarinnar í málum sem stjórnarandstaðan telur skaðleg og brjóta í berhögg við þjóðarvilja. Annað veifið heyrast þær raddir að banna eigi þingmönnum að hafa langt mál um slík mál. Það væri mikið óráð. Eða vilja menn virkilega að kæfa stjórnmálaumræðu í landinu? Þöggun á þingi mundi vera skref í þá átt.“

Virðulegi forseti. Þetta er það sem við erum að berjast fyrir. Við erum að berjast fyrir því að það sjónarmið komist til skila að óviðeigandi sé með öllu að Alþingi samþykki að afsala sér valdi eins og hæstv. forsætisráðherra krefst. Síðan eru flutningsmenn frumvarpsins svo skyni skroppnir, þegar litið er á gang mála, að þeir halda að umræðurnar snúist ekki um neitt, umræðurnar snúist ekki um nein grundvallarmál. Svo leyfir hæstv. fjármálaráðherra — sem er flokksbróðir Ögmundar Jónassonar, hæstv. heilbrigðisráðherra, sem skrifaði á þennan veg um gildi þess að þingmenn héldu uppi umræðum um mikilvæg mál — sér að túlka umræðurnar á þann veg sem hann gerir og leyfir sér að fullyrða við fréttamenn í ræðum á þingi að hann sitji undir þessum umræðum og viti um hvað þær snúist. Hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki verið hér nema í flugumynd. Flugur á vegg geta stundum hlustað á eitthvað sem menn eiga ekki að heyra eða vita en hann gæti þó setið hér og hlustað á umræðurnar og tekið þátt í þeim en ekki gagnrýna okkur utan þings fyrir það sem við erum ekki að segja hér. Við erum að berjast fyrir rétti Alþingis til að hafa það vald að geta sett þjóðinni stjórnarskrá og við munum ekki gefast upp í þeirri baráttu.