136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:08]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess sem hv. þingmaður vitnaði til, og kom líklega fram í umræðum í gær frá hæstv. forsætisráðherra, að nauðsynlegt væri að þingið afsalaði sér þeirri stöðu sem það hefur í dag vegna þess að það gæti ekki sett lög um kjördæmaskipan — en það er einmitt það sem þingið hefur gert. Það hefur tvívegis á síðustu árum gert breytingar á kjördæmaskipan og löggjöf um úthlutun þingsæta, það er í kringum kosningarnar 1983 og 1999. Það hefur verið sæmilega góður friður um þær breytingar, bæði innan þings og utan, þannig að sú röksemd dugar ekki að mínu viti til að komast að þeirri niðurstöðu að þingið sé ófært um að sinna þessu hlutverki.

Ég vil kannski benda á, í ljósi þess að ákvæði um stjórnlagaþing er útskýrt með því að taka þurfi vald frá Alþingi, sem það hefur, vegna þess að það geti ekki gert það sem ætlast er til, að í þessu frumvarpi er gagnstæð leið farin. Þar er Alþingi að taka sér stjórnlagavald og sneiðir hjá þjóðinni í þeirri atburðarás með því að þeirri breytingu sem gerir þetta mögulegt er ekki skotið til þjóðarinnar. Sú breyting er bara hér innan húss og fer fram hjá þjóðinni og með henni er verið að færa stjórnlagavald, vald til að ákveða hvað er í stjórnarskrá, inn í einföld lög — það hvað eru náttúruauðlindir á hverjum tíma á að ákvarðast í lögum en ekki með ákvæði í stjórnarskrá. Þeir sem flytja málið eru að fara hina leiðina, þeir eru að fela Alþingi stjórnarskrárvald með einföldum lögum og sniðganga þjóðina í þeirri atburðarás.