136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:29]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Megingagnrýni stjórnarliða gagnvart ræðum okkar hefur verið sú að ásaka okkur um málþóf, þó ég tæki tíu mínútur til að svara því með þeim hætti sem ég gerði að ekki væri um málþóf að ræða heldur efnisleg umræða um mikilvægt málefni. Því vísa ég umsögn hv. þingmanns á bug.

Það kom einmitt fram að þingskapalög hafa breyst. Það er alveg rétt. Ég hef kosið að nýta tíma minn sem ég hef haft hingað til, sem er rúmur klukkutími og tíu mínútur með þeirri ræðu sem ég hélt áðan. En ég gæti alveg hugsað mér að nota tíu tíma til að koma hugðarefnum mínum á framfæri.

Þingskapalögin takmarka tíma minn sem þau gerði ekki á þeim tíma þegar Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. forsætisráðherra, taldi fulla ástæðu til að nota tíu tíma í einum rykk til að koma hugðarefnum sínum á framfæri. Þetta er hin lýðræðislega umræða sem við höfum tekið að okkur að taka á hinu háa Alþingi.

Hvað varðar umræðu um fundarstjórn forseta hafa þingskapalögin þróast. Það er alveg rétt. Þarna eru okkar leið til að koma athugasemdum á framfæri um ranga forgangsröðun í málum sem rætt er um á hinu háa Alþingi.

Það er því ekkert við það að athuga að við ræðum um fundarstjórn með þeim hætti sem við höfum gert, m.a. til að vekja athygli þjóðarinnar á áherslum okkar. Ég sé nú ekki betur í fjölmiðlum í gær og í dag en að þjóðin sé að vakna til vitundar um að málflutningur okkar er réttur og hann er skynsamlegur. Það er nákvæmlega það sem stjórnarliðar eru núna að óttast, að skilaboð okkar eru að komast í gegn og umræðan snúast okkur í hag.