136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:33]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér. Eins og ég las upp áðan úr pistli frá þáverandi óbreyttum hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem birtist 21. janúar 2007 á heimasíðu hans. Þar segir hann:

„Það eru umdeildu málin sem kalla á athygli. Langar umræður á Alþingi eru einmitt oftar en ekki tilraun til að ná eyrum þjóðarinnar í málum sem stjórnarandstaðan telur skaðleg og brjóta í berhögg við þjóðarvilja.“

Ég tek alveg undir með hv. þingmanni að mér hefði fundist að fjölmiðlar hefðu mátt gera umræðunni mun betri skil en þeir hafa gert. En ég tel fjölmiðlar séu að vakna til vitundar núna akkúrat með þessari löngu umræðu sem við höfum verið að taka, sem við höfum verið einhuga, allur þingflokkurinn, verið einhuga um að koma á framfæri jafnvel þó við vitum að á einhverju tímabili hafi það ekki hjálpað okkur í kosningabaráttu. Við höfum það mikla sannfæringu í þessu máli að við erum jafnvel tilbúin til að horfa á það að þetta skaði okkur í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar fram undan.

Eitt skýrasta merki um það að við erum að ná eyrum þjóðarinnar er þegar skopmyndirnar eru farnar að sýna umræðuna og ég hvet hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, formann þingflokks Samfylkingarinnar, að fletta Morgunblaðinu í dag þar sem teiknimynd eftir Halldór er nákvæmlega um þetta, þ.e. þar er þjóðarskútan, heimilin og fyrirtækin að sökkva en hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon standa hjá og leggja áherslu á að það þurfi að ræða stjórnarskrána sem við vitum að var ekki ástæðan. Stjórnarskráin sjálf var ekki ástæðan fyrir því hruni sem var í haust. Það er með engu móti hægt að rekja hrunið í haust til ákvæða stjórnarskrárinnar. Það hefur algerlega verið röng áhersla í gangi í þinginu og það höfum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýnt þegar við höfum rætt um stjórn þingsins.