136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:37]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef einmitt velt þessu fyrir mér. Hvers vegna leggja stjórnarliðar og stjórnarmeirihlutinn áherslu — stjórnarminnihlutinn reyndar með stuðningi Framsóknar — á þessar breytingar? Ég átta mig hreinlega ekki á hvað liggur þarna að baki en dettur helst samt í hug að hér sé um alvarlega afneitun á ástandinu að ræða með því að neita að horfast í augu við það hver sé vandi heimilanna og fyrirtækjanna í landinu eða kannski treysta menn sér ekki til að takast á við þau verkefni og vilja afvegaleiða þjóðina, umræðuna með því að beina athyglinni að stjórnarskránni sem ber enga sök. Það er ekkert í stjórnarskránni sem hægt er að benda á og segja: Þetta brást, þess vegna þurfum við að breyta því. Ég tel að við séum algerlega á rangri leið eða að stjórnarminnihlutinn með stuðningi Framsóknar sé algerlega á rangri leið. Þeir lögðu reyndar upp með þetta sem hluta af samkomulagi við Framsóknarflokkinn, þ.e. að gera tilteknar breytingar, keyptu Framsóknarflokkinn og leggja þess vegna meðal annars mikla áherslu á að ljúka þessu til að halda Framsóknarflokknum góðum. En sá tími er liðinn. Framsókn hefur ekki fengið nokkuð út úr þessu samkomulagi um stuðning við ríkisstjórnina og ég skil ekki af hverju þeir hanga á því roði. Meira að segja hefur gagnrýni innan þeirra eigin raða verið á þetta fyrirkomulag og þeir eru að tapa verulega í skoðanakönnunum. Ég verð því að svara hv. þingmanni með því að ég tel að þetta sé alvarleg tegund af afneitun og leið til að afvegaleiða þjóðina, leiða hana frá þeim vandamálum sem við blasa. Hugsið ykkur þá orku sem hefur farið í það hjá ríkisstjórninni að fara í þetta mál sem sem hefði betur farið í það að leysa vanda heimilanna og fyrirtækjanna í landinu sem við sjáum að eru að fara á mjög alvarlegt stig.