136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:18]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Í því andsvari sem við hlýddum á áðan kemur kannski í ljós það sem hv. þingmaður Pétur H. Blöndal var að segja, þ.e. að þeir sem leggja frumvarpið fram eru ráðþrota. Sú er nefnilega raunin að menn eru farnir að sjá það núna hvað er að gerast með frumvarpinu. Þetta er algert mein. Það má kannski segja að þetta sé hálfgert krabbamein, herra forseti, sem hér er verið að setja fyrir okkar þjóð.

Ástæða þess að Sjálfstæðisflokkurinn stendur fast í fæturna varðandi málið eru ekki komandi kosningar, það er ekki það. Við sjáum það bara, þegar málið er skoðað ofan í kjölinn, að verið er að koma af stað ringulreið í samfélaginu, stjórnleysi. Hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi að hæstv. forsætisráðherra hefði ekki slegið met Castros í ræðuhöldum að tíma til þó að hún hafi talað á 11. klukkustund í þinginu á sínum tíma. En það er verið að koma af stað svipaðri tilhneigingu eins og er á Kúbu og austurríkjunum þar sem hreinn sósíalismi ræður ríkjum. Það er það sem verið er að koma af stað með þessu.

Það er hárrétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan að dýrmætasta eign Íslendinga frá upphafi er Alþingi. Það er Alþingi Íslendinga sem er okkar dýrmætasta eign. Í þeim breytingum sem hér um ræðir segir að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign. En er ekki Alþingi þjóðareign? Hvergi er á það minnst, herra forseti. Ekki er minnst á það að selja megi eignina, þessa dýrmætustu eign okkar, Alþingi, selja hana í hrossakaupum innan stjórnarheimilisins, hrossakaup minnihlutastjórnar. Það er það sem má segja um frumvarpið. Þetta eru hrossakaup þeirrar minnihlutastjórnar sem nú situr á Alþingi og það er ótrúlegt hvernig þetta mál hefur þróast hér. Því meir og því betur sem farið er yfir hverja einustu setningu í frumvarpinu sjáum við hversu kolgallað það er. Það þarf að standa í ræðupúlti Alþingis og fara yfir málin. Það þarf að ná í gegn að þjóðin átti sig á því hvað við erum að gera og hvers vegna við stöndum í fæturna í ræðupúlti Alþingis.

Ég hirði ekkert um það, herra forseti, að hæstv. ráðherrar séu ekki við umræðuna. Það skiptir okkur engu máli. Það skiptir mig heldur engu máli hvort flutningsmennirnir sitja í salnum eða ekki. Það sem skiptir meginmáli er það að þjóðin átti sig á því hvað verið er að gera. Við þurfum að koma því til þjóðarinnar að hér er verið að vinna mikið óhæfuverk fyrir samfélagið sem verið hefur á Íslandi og frá alþingisstofnuninni 930, frá því að við eignuðumst okkar dýrmætustu eign sem er Alþingi. Við þurfum að koma því til þjóðarinnar, og ég sagði það fyrr í morgun, í ræðu minni, að fjölmiðlarnir á Íslandi hafa ekki staðið sig sem skyldi. Ríkisfjölmiðlunum ber að taka svo viðamikið mál upp og gera því almennileg skil, gera því vönduð skil þannig að öll sjónarmið komist til þjóðarinnar. Það hefur ekki verið gert því miður. Þess vegna höfum við það eina úrræði að standa í ræðustól Alþingis og standa hér og kynna það fyrir þjóðinni hvað er á ferðinni og hvers vegna við stöndum svo fast í fæturna sem raun ber vitni. Það er okkar mikilvægasta mál.

Herra forseti. Það kom svo greinilega í ljós, í andsvörum sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson átti við Pétur H. Blöndal rétt áðan, að þeir sem eru flytjendur í þessu máli og standa að því hér eru ráðþrota. Þeir eru sjálfir farnir að átta sig á því að þeir eru í gíslingu í eigin máli, þessir þrír flokkar sem flytja þetta frumvarp um stjórnlagaþingið, um stjórnarskrána okkar. Það er ótrúlegt að upplifa það hvernig þetta hefur komið fram og hvernig menn ætluðu að keyra þetta með offorsi í gegnum þingið.

Ég hef áður í ræðum mínum nefnt það að við höfum mikil gögn frá umsagnaraðilum. Ég ætla þess vegna, herra forseti, og með leyfi forseta, að lesa upp nokkrar línur frá nokkrum aðilum sem hafa gefið umsögn. Það skyldi þó ekki vera að við þyrftum einmitt að hlusta.

Í ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, í eldhúsdagsumræðum í gær kom fram að 27 aðilar hefðu gefið umsögn til nefndarinnar sem fjallaði um frumvarpið. Einungis tveir voru sammála frumvarpinu, 25 umsagnir voru neikvæðar. Er það einhver tilviljun að við stöndum hér og reynum að færa rök fyrir því hvernig þessum málum er háttað og hverju þurfi að breyta og hvernig? Auðvitað viljum við fyrst og fremst að málið verði tekið út af dagskrá og unnið betur.

Ég vitna til nokkurra umsagna, herra forseti. Davíð Þór Björgvinsson segir að skammur tími sé til umsagnar miðað við umfang málsins. Það kemur fram hjá öllum 25 aðilunum. Sigurður Líndal segir að tíminn sé naumur. Ragnhildur Helgadóttir telur óheppilegt að víkja frá hefð um samstöðu. Það er atriði sem komið hefur fram og kemur fram bæði í umræðunni á Alþingi og í öllum umsögnum. Hætta er á óæskilegri þróun, segir Ragnhildur og biður menn að fara sér hægt við breytingar. Þó megi skoða tilteknar breytingar. Samband íslenskra sveitarfélaga segir eðlilegt að bíða með breytingar fram yfir kosningar. Umsagnir frá Lögmannafélaginu eru í þessa átt. Samorka segir um 2. gr. að þörf sé á lengri fresti. Mikil óánægja sé með þessi vinnubrögð við stjórnarskrárbreytingar. — Svona má halda áfram og lesa þetta þykka plagg í gegn frá orði til orðs, sem ég hef ekki tíma til og ætla ekki að gera, en þannig er málflutningur þeirra aðila sem hafa verið beðnir um að gefa umsögn. Ég held samt áfram. Landssambandi smábátaeigenda þykir miður hve knappur tími er til umsagnar. Mig langar, herra forseti, að fara aðeins inn í 4. gr. Það fer að sneyðast um tíma. Um það segir Ragnhildur Helgadóttir að í raun sé ekki þörf á heildarendurskoðun stjórnarskrár. Hún er alls ekki andvíg stjórnlagaþingi en vill ítarlegar hugleiðingar og athugasemdir og bendir á ýmis álitamál.

Þetta er ekkert rætt á hinu háa Alþingi. Eins og ég sagði áðan eru ráðherrarnir ekki í salnum. Flutningsmennirnir hlýða ekki á mál þingmanna sem hér tala og halda uppi vörnum fyrir þeirri dellu sem verið er að kynna með frumvarpinu. Það breytir sennilega engu, herra forseti, hvort þeir sitja hér eða ekki. Þeir kæra sig kollótta. Það á að keyra þetta í gegnum þingið með ósamstöðu og umsagnaraðila óánægða. Það sem stendur upp úr í öllu þessu máli er að verið er að selja þessa dýrmætustu eign okkar, sem er Alþingi. Það er verið að útvista, eins og ég kalla það, verkefnum frá Alþingi til stjórnlagaþings sem er óskilgreint í þessum lagabálki. Stjórnlagaþingið á sjálft að setja sér starfsreglur — það veit í raun enginn hvers konar óskapnaður stjórnlagaþingið verður ef það kemur nokkurn tíma saman. Ef við ætlum að hafa stjórnlagaþing verður að setja skýrari reglur um hvað það á að gera. Það ætti einungis að vera umsagnaraðili til þingsins.