136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:39]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér komu satt að segja orð hv. þm. Marðar Árnasonar mjög spánskt fyrir sjónir, með hvaða hætti hann kom fram. Mér finnst nú eðlilegt þar sem hann er horfinn á braut og er ekki til að hlusta frekar á þá umræðu sem hann hóf að inna hv. þingmann formann þingflokks Samfylkingarinnar, Lúðvík Bergvinsson, hvort hann telji þetta eðlilegt og taki undir með samþingmanni sínum Merði Árnasyni um þau sjónarmið sem hann setti fram gagnvart forseta sem getur ekki svarað fyrir sig þeim dylgjum sem hv. þm. Mörður Árnason beindi að honum.

Ég hefði talið eðlilegt að hv. þm. Mörður Árnason hefði sett þetta fram við annað tækifæri en það er hans mál.

Ég efast um að sú hugmynd sem hv. þm. Kjartan Ólafsson benti á, að hv. þm. Mörður Árnason yrði settur á námskeið í siðprýði, að slíkt námskeið mundi nokkuð gagnast.