136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:42]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst hæstv. forseti hafa stjórnað þessum fundi með mikilli prýði eins og aðrir forsetar sem hafa verið hér í morgun eins og ég hef þegar nefnt í örstuttu inngripi í umræðuna sem fór fram undir liðnum um fundarstjórn forseta.

Það er stundum sagt, virðulegur forseti, að umræðan sé alltaf af hinu góða. Ég er ekki endilega alltaf sammála því. Stundum leiðir hún menn líka út í ógöngur og er kannski ekki til þess fallin að skýra málin. Við skulum samt sem áður gefa því vægi að umræðan í sjálfu sér leiði alltaf til einhvers góðs og að málin geti skýrst þegar líður dálítið á hana.

Í fyrstu ræðu minni um þetta frumvarp gerði ég að talsverðu umræðuefni hvernig staðið hefði verið að undirbúningi þessa máls. Ég hafði miklar efasemdir og áhyggjur af því hvort málið væri þannig úr garði gert að það væri líklegt til að geta stuðlað að sáttum um stjórnarskrána og hvort allir þeir sem um véluðu og fjölluðu um málið væru sammála um hvað frumvarpið fjallar í raun og veru. Við getum sagt sem svo að það sé komin einhver skýrari mynd á það í þessari umræðu sem hefur staðið nokkuð lengi, þó ekkert sérlega lengi miðað við ýmislegt annað sem hefur verið rætt ítarlega í þinginu, frumvarp um húsnæðismál svo dæmi sé tekið eða Ríkisútvarpið og sitthvað fleira sem við höfum oft rætt hér sem hefur tekið mikinn tíma í þinginu. Engu að síður finnst mér þegar ég reyni aðeins að átta mig á því sem hefur komið fram í þessari umræðu að hún hafi orðið til góðs og hafi skýrt suma hluti.

Vandinn er kannski sá að það sem er orðið ljósara í þessari umræðu er það hversu óskýrt þetta frumvarp er í raun og veru. Það er búið að skýra það og komin gleggri mynd á að frumvarpið er óljóst. Það held ég að sé veigamesti gallinn á þessu máli öllu saman.

Ég hef margoft lýst því yfir að ég tel, og ég veit að það er sjónarmið í mínum flokki, að við þurfum auðvitað að takast á við þau mál sem hérna er verið að fjalla um og fleiri í stjórnarskránni en þá verðum við auðvitað að gera það með þeim hætti að okkur sé alveg ljóst að hverju við erum að stefna og hvað við viljum meina. Mig grunar að innst inni séu menn ekki alveg ósammála um ýmislegt af því sem efnislega er verið að fjalla um en gallinn er bara sá að þegar við skoðum þetta og berum það saman við álit þeirra sem hafa kíkt á málið — ég verð að segja kíkt á málið því að menn fengu, eins og við munum, fimm virka daga til þess — verður ekki sagt að þetta mál sé orðið nægilega þroskað eða nægilega vel unnið eða nægilega skýrt til að við getum lagt það frá okkur með góðri samvisku í ljósi þess að við erum að tala um sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Endalaust væri hægt að vitna í ýmsa umsagnaraðila í þessu sambandi en ég ætla að láta mér nægja til að greiða fyrir þingstörfunum að víkja fyrst og fremst að umsögn Davíðs Þórs Björgvinssonar, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu og prófessors við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hvað sem menn segja um sjónarmið hans verður hann varla dæmdur sem einhver léttavigtarmaður í þessari umræðu og orð hans eru af þeim toganum að það er algjörlega ómögulegt að mínu mati að reyna að tala sig frá þeim sjónarmiðum. Þetta eru sjónarmið sem við hljótum að taka mjög mikið mark á.

Dómur dómarans við Mannréttindadómstól Evrópu er mjög afdráttarlaus. Hann tekur undir að það sé ástæða til að taka stjórnarskrána til endurskoðunar í ljósi reynslunnar og það er út af fyrir sig gilt og eðlilegt sjónarmið sem ég get á margan hátt tekið undir. Hann segir hins vegar að þetta frumvarp eins og það er úr garði gert, eins og það liggur fyrir, eins og það var lagt fram í marsmánuði sl., sé grundvöllur fyrir frekari skoðun á einstökum atriðum. Með öðrum orðum er prófessorinn og dómarinn í raun og veru að segja að þetta mál sé prýðilegt vinnuskjal, minnisblað til frekari umfjöllunar eða frekari vinnu við það að gera það sem frumvarpinu er ætlað, að leggja grundvöll að nýrri stjórnarskrá að þessu leytinu fyrir lýðveldi okkar. Sá er kjarni málsins. Sé það svo sem dómarinn/prófessorinn segir, að þetta sé minnisblað, vinnuskjal sem menn geti haft ásamt öðrum til að fara yfir þessi mál, segir það auðvitað þá sögu að málið er vanreifað af hálfu þeirra sem leggja það fram. Hann áréttar það síðan í einni málsgrein þegar hann fjallar sérstaklega um 1. gr. sem ég tæpti aðeins á í ræðu minni fyrr í morgun. Hann segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Þó ber að árétta að þetta er flókið mál“ — og þá er hann að vísa til 1. gr. frumvarpsins, þessa burðarmáls sem lýtur að þjóðareigninni og skyldum hlutum — „og æskilegt að nákvæm skoðun fari fram á þessu atriði og mögulegum afleiðingum ákvæðisins að þessu leyti.“

Þetta eru gríðarlega stór orð. Þó að dómarar og prófessorar séu jafnan ekki stóryrtir í þeim skilningi er dómari að segja okkur að þetta mál, þótt það sé vert allrar athygli og þótt gögnin sem fylgi séu fróðleg, sé vanreifað. Við vitum ekki almennilega í okkar haus hvað þetta felur í sér. Þess vegna kalla ég eftir því og skora í raun og veru á ábyrgðarmenn málsins, þá sem hafa skrifað undir nefndarálitið og hafa vald þess í hendi sér ásamt þingmeirihlutanum á Alþingi, að taka tillit til þessa, hægja á vinnunni, ljúka málinu eins og ég hef margoft lýst yfir með því að opna á breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar sem gerir okkur þá kleift að vinna þetta mál í góðri sátt síðar á árinu, ljúka því fyrir áramótin með skaplegum hætti þannig að um það skapist meiri friður. Það getur ekki verið þannig að mál sem snýr að grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar, t.d. sjávarútvegi, sé skilið eftir í einhverri himinhrópandi óvissu.

Mér er ljóst að uppi eru nú þegar ýmis álitamál þegar kemur að fiskveiðiauðlindinni og nýtingarréttinum þar. Mér er líka ljóst að aldrei verður þannig gengið frá mannanna verkum að þau séu svo óumdeild að þar séu ekki einhver umdeilanleg atriði. En þegar svona ábendingar koma úr þessari átt, frá manni sem ekki er með nein stóryrði uppi en talar þó af miklum þunga í umsögn sinni, hljótum við að taka undir þetta. Við hljótum að taka tillit til þessa. Ég veit vel að meiri hluti nefndarinnar er annarrar skoðunar, telur að þetta sé afdráttarlaust ákvæði, feli í sér viðurkenningu á atvinnuréttindum útgerðarmanna, að ekki sé hróflað við hinum óbeinu eignarréttindum sem atvinnurétturinn skapar í sjálfu sér og ekki sé verið að hrófla við því. Það hlýtur að teljast út af fyrir sig gagn í málinu þegar málaferli hefjast. Mér er alveg ljóst að við þurfum ekki, því miður, að efast um að þetta muni kalla á málaferli vegna þess hvernig umræðan hefur þróast og hvernig umsagnirnar eru. Þetta verður sjálfstætt tilefni til að hér hefjist heilmikil málaferli og þess vegna skora ég enn og aftur á stjórnarmeirihlutann að bregðast við þessu með jákvæðum hætti til að koma í veg fyrir að við sköpum óvissu í atvinnugreinum, eins og sjávarútvegi og eftir atvikum orkunýtingunni þar sem menn hafa líka talað um í þessu sambandi eins og ég hef reynt að árétta hérna að þetta ákvæði sé óskiljanlegt. Þar er reyndar kveðið enn þá skýrar og fastar að orði, þetta óskiljanlega frumvarp, það sé þá a.m.k. reynt að gera það skiljanlegra. Það getur ekki verið markmið með frumvarpi eins og þessu að ganga þannig frá því að mönnum sé það ekki óskiljanlegt, a.m.k. ekki þeim sem í þessum sal sitja og bera þó ábyrgð á málinu þegar það er lagt fyrir þjóðina til afgreiðslu í kosningunum sem eru fram undan og að það liggi þá ekki skýrt fyrir gagnvart nýju Alþingi að vita nákvæmlega hvað þetta þýðir.

Þetta frumvarp eins og það liggur fyrir núna, verði það að lögum, mun fyrst og fremst verða veisla fyrir lögmenn. Þetta verður mikil veisla sem lögmenn fá að taka þátt í og ég geri út af fyrir sig ekki lítið úr þýðingu þess að lögmenn hafi nóg að gera. Við vitum hins vegar að það getur ekki verið markmið með stjórnarskrárbreytingum að búa í haginn fyrir lögmenn þannig að þeir geti dundað sér við það að takast á í dómsölum um svona mál. Við hljótum að ætlast til þess að við göngum þannig frá málinu að þeir sem gleggst vita, þeir sem þekkja best til, séu a.m.k. þeirrar skoðunar að efnisatriði stjórnarskrárinnar séu skýr og hún sé ljós þannig að við búum ekki málið þannig úr garði að mönnum sé ekki ljóst hvað þetta þýðir.

Ég ætla svo ef ég tek síðar til máls að vekja athygli á nokkrum umsögnum í þessa veru sem segja líka að þeir sem um eru að véla og hafa mesta hagsmuni, eins og t.d. Landssamband smábátaeigenda, telji (Forseti hringir.) að þetta mál sé algerlega óljóst í þeirra huga.