136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:01]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður vísaði ítrekað í Davíð Þór Björgvinsson, dómara og fræðimann, sem fullyrðingu í þá veru að 1. gr. væri óljós, eða efni þess hugtaks sem sú grein er sniðin utan um, langaði mig að vísa beint í athugasemdir Davíðs en hann segir m.a. um hugtakið þjóðareign:

„Orðanotkun að þessu leyti er ekki sérstakt vandamál, enda nægjanlega skýrt í greinargerð hvað átt er við, auk þess sem hafa má hliðsjón af þjóðlendulögunum, sbr. lög nr. 58/1998, eins og bent er á í greinargerð. Ástæða er til að taka þetta fram þar sem heyrst hafa þau sjónarmið að hugtakið sé merkingarlaust ...“

Umræddur Davíð hefur ekki meiri áhyggjur en það, mig langaði bara að draga þetta fram. Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji, eins og umræðan hefur verið hér hjá flestum — vissulega eru undantekningar, en hjá flestum sjálfstæðismönnum hef ég skynjað umræðuna á þann veg að ná megi ákveðinni sátt um 1., 2., og 3. gr. í frumvarpinu. Stóri ágreiningurinn hefur verið um stjórnlagaþingið og spurninguna um það hvort það eigi að hafa sjálfstæðan tillögurétt eða vera ráðgefandi. Það hefur verið stóra málið í þessu. Mig langaði því að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þrátt fyrir langar umræður kunni að vera flötur á því að ná megi sáttum í þessu máli.