136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:27]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Við ræðum við 2. umr. nefndarálit um frumvarp um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, mál sem er að mörgu leyti mjög gott og nýtist vonandi þeim sem þurfa á þessari aðstoð að halda. Hv. allsherjarnefnd hefur farið mjög ítarlega yfir málið og gríðarleg vinna hefur farið fram á vettvangi nefndarinnar sem ber að þakka.

Hins vegar langar mig að ræða aðeins hvað hv. framsögumaður nefndarálitsins telur að þetta frumvarp geti orðið að umfangi ef það rætist að hátt í 20.000 Íslendingar verði án atvinnu, lán heimilanna fari hækkandi, tekjur heimilanna fari aftur á móti minnkandi og við horfum á mikla erfiðleika almennt í íslensku samfélagi. Því er spáð að verði ekkert róttækt að gert verði 3.500 fyrirtæki gjaldþrota á næstu 12 mánuðum og auðvitað mun það snerta hag hvers einasta heimilis með einum eða öðrum hætti. Í ljósi þess að vandamálin fram undan virðast hrannast upp spyr ég hvort hv. þingmaður sjái fram á það að senda hluta, jafnvel stóran hluta, af íslenskum heimilum fyrir héraðsdóm sem skipar þeim tilsjónarmann til að meta hvert einasta heimili í landinu, hversu lægri greiðslubyrði viðkomandi heimila eigi að vera vegna afborgana af lánum sínum.

Í þessu frumvarpi er talað um að hver tilsjónarmaður muni jafnvel kosta 250.000 kr. Hvert er þá umfangið ef við gerum ráð fyrir 10.000 einstaklingum? Ég held reyndar að sú tala sé mjög varlega áætluð í ljósi þeirra aðvörunarorða sem við heyrum utan úr samfélaginu um hvað sé fram undan, yfirvofandi atvinnuleysi og gjaldþrot fyrirtækja. Ef við erum að tala um 10.000 einstaklinga greiðir ríkissjóður a.m.k. 2,5 milljarða, 2.500 millj. kr., vegna tilsjónarmanna. Ég fer að fá á tilfinninguna að menn muni endurskilgreina vísitölufjölskylduna með þessu áframhaldi, að hún verði hjón, tvö börn og tilsjónarmaður. Er þetta sú framtíðarsýn sem við viljum sjá eða ætlum við að reyna að grípa til fyrirbyggjandi lausna til að koma í veg fyrir að tugþúsundir Íslendinga þurfi að leita á náðir héraðsdóms, fá sér tilsjónarmann sem kostar a.m.k. 250.000 kr. fyrir skattgreiðendur eða vilja menn raunverulega koma í veg fyrir að 3.500 íslensk fyrirtæki verði gjaldþrota á næstu 12 mánuðum og að atvinnuleysi muni aukast stórum skrefum í framhaldi af því? Það er akkúrat í þeim vanda sem við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að menn ráðist í róttækar breytingar, róttækar aðgerðir til að koma í veg fyrir að þetta ástand blasi við okkur.

Ég spyr hv. þm. Álfheiði Ingadóttur: Sjá menn jafnvel fram á að menn myndi jafnvel heilar ríkisstofnun utan um þetta, Ríkisstofnun tilsjónarmanna, sem verður væntanlega með mörg hundruð manns í vinnu? Það getur verið að það sé sú framtíðarsýn, að við sköpum atvinnu með þeim hætti að skapa því fólki sem lendir í þessum vanda tilsjónarmenn á kostnað hins opinbera.

Það er algjört grundvallarmál að við áttum okkur á því í þessari umræðu hvert við stefnum. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að við viljum fyrirbyggja að hér verði stofnuð stofnun tilsjónarmanna íslenskra fjölskyldna. Það finnst mér óhugnanleg framtíðarsýn. Ég spyr hv. þingmann hvað hún sjái fyrir sér að mörg þúsund fjölskyldur muni leita sér þessarar aðstoðar, muni fara í gegnum það erfiða ferli að leita á náðir dómstóla, fá tilsjónarmann til að menn geti áætlað hversu mikið viðkomandi geti greitt á mánuði. Er þá ekki betra að reyna að grípa fyrr inn í ferlið þannig að þetta frumvarp sem við ræðum hér nái vonandi einungis til nokkurra hundruða eða örfárra þúsunda en ekki tugþúsunda Íslendinga ef fram heldur sem horfir? Það er mikilvægt að við ræðum þetta opinskátt í þessari umræðu vegna þess að mér sýnist að við metum mjög misjafnlega horfurnar í íslensku samfélagi.

Það kom mér mjög á óvart að heyra hv. þm. Kristján Þór Júlíusson segja úr ræðustól Alþingis í gær að útlitið væri mjög bjart og ég hef heyrt hv. þm. Pétur H. Blöndal taka í svipaðan streng í umræðunni. Ég tel að við þurfum að horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er. Það getur vel verið að það sé ekkert vinsælt fyrir okkur framsóknarmenn að tala á þeim nótum sem við gerum hér en það er brýnt að við hlustum gaumgæfilega á þær aðvörunarbjöllur sem klingja alls staðar í samfélaginu. Við teljum brýnt að ráðast í aðgerðir til að koma í veg fyrir mögulegt kerfishrun hér á landi.

Við framsóknarmenn styðjum þetta frumvarp sem hér er til 2. umr. en vörum jafnframt við að ekki sé horft á fyrirbyggjandi lausnir. Ég spyr því í fullri vinsemd hv. þm. Álfheiði Ingadóttur hvað hún sjái fyrir sér að þetta frumvarp muni leiða af sér í kostnað fyrir hið opinbera á þessu ári. Erum við að tala um að 1.000 manns leiti á náðir dómstóla og fái þá tilsjónarmann með sér, 10.000 eða 15.000? Erum við jafnvel að horfa upp á að sett verði á fót sérstök stofnun tilsjónarmanna íslenskra fjölskyldna og heimila? Það er mikilvægt í þessari aðalumræðu um málið að við fáum á hreint hver framtíðarsýn einstakra þingmanna er í þessum efnum.