136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. allshn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessari spurningu eins og síðustu spurningu hv. þingmanns er auðvelt að svara. Já, ég tel það nauðsynlegt og ég minni á að ég flutti ásamt hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og Árna Þór Sigurðssyni frumvarp þess efnis fyrr í vetur.

Hvað varðar það sem ég sagði áðan, að mála skrattann á vegginn, þá vil ég ítreka að þar var ég að tala um orð hv. þingmanns um sérstaka stofnun umsjónarmanns með heimilum í landinu og að væri verið að efla mjög atvinnu fyrir lögmenn og héraðsdómara. Orð mín voru sögð í ljósi þeirra orða.

En ég vil alls ekki gera lítið úr erfiðleikum heimilanna í landinu með þeim orðum. Þvert á móti vil ég vekja sérstaka athygli á greiningu Seðlabanka Íslands sem kynnt var í síðustu viku, dagsett 27. mars síðastliðinn, þar sem fram kemur að ríflega 6% heimila með fasteignaveðlán á íbúðarhúsnæði eru með meira en 5 millj. kr. í neikvæðri eiginfjárstöðu og það eru 20% af heildarhúsnæðisskuldunum. Hér erum við að tala um tæplega 5.000 heimili sem eru í afar viðkvæmri stöðu og í mikilli hættu á að fara í þrot. Það þarf sérstaklega að beina athygli og aðgerðum að þessum hópi.

Hins vegar er í þessari skýrslu að finna þær góðu fréttir að um það bil 60% af heimilum eru með meira en 5% í jákvæðri eiginfjárstöðu en með 44% húsnæðisskuldanna. Það þýðir að sá hópur, 60% heimila, er í mun betri aðstöðu til þess að ráða við ýmis tekjuáföll. Í skýrslunni er einnig að finna útreikninga og mat á tveimur hugmyndum sem mikið hafa verið ræddar, m.a. hugmynd Framsóknarflokksins um 20% afskrift allra húsnæðisskulda og hugmynd eins frambjóðanda hjá Vinstri grænum, um 4 millj. kr. lækkun húsnæðisskulda. (Forseti hringir.) Ég hvet hv. þingmann til þess að kynna sér það.