136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:48]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Sá samhljómur sem er hér í umræðunni um vanda heimilanna er gleðilegur. Ég vonast til þess að við getum tekið höndum saman um að finna einhverjar sameiginlegar lausnir að því markmiði okkar að hjálpa sem flestum heimilum áður en viðkomandi heimili lenda í því að ganga í gegnum eitthvert niðurlægingartímabil, gjaldþrota í sínu bókhaldi þannig að fólk geti jafnvel ekki keypt sér hús næstu fimm eða tíu árin og lendi á vanskilaskrá þess vegna.

Það var hárrétt sem hv. þingmaður benti á þegar hún talaði um ríkisbankana og hvað ríkisstjórnin geti gert til að stuðla að því að þeir verði sanngjarnari gagnvart þeim viðskiptavinum sem þeir eiga viðskipti við í dag. Ég vil benda á mismuninn á því annars vegar hvernig Íbúðalánasjóður meðhöndlar viðskiptavini sína og margir ríkisbankanna hins vegar, því að ríkisbankarnir eru miklu óbilgjarnari gagnvart mörgum viðskiptavina sinna en Íbúðalánasjóður hefur verið undanfarnar vikur. Ég þekki það af eigin raun eftir að hafa talað við fólk sem hefur átt í viðskiptum við suma af þessum bönkum.

Mikilvægt er að það komi skýr skilaboð frá ríkisstjórninni um að ríkisbankarnir meðhöndli fólk með sama hætti og ríkisbankinn Íbúðalánasjóður gerir, að það séu sömu úrræði þar þannig að við náum að fleyta sem flestum heimilum í gegnum þá erfiðleika sem blasa við okkur.

Enn og aftur minni ég svo á að við megum ekki láta það gerast að við horfum upp á það að 3.500 íslensk fyrirtæki verði gjaldþrota á næstu 12 mánuðum ef sumar spár ganga eftir, og við horfum upp á það í framhaldinu að atvinnuleysi verði enn meira en það er í dag, í viðbót við þá 18.000 Íslendinga sem eru án atvinnu og 13.000 háskólanema sem eru að koma út á vinnumarkaðinn í sumar og sjá ekki fram á að fá vinnu við hæfi. Ef við horfum upp á það að 3.500 fyrirtæki til viðbótar fari á hausinn hvar endum við þá? (Forseti hringir.) Við þurfum róttækar aðgerðir, herra forseti.