136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

tekjuskattur.

410. mál
[15:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er eitt af þeim málum sem hæstv. forseti féllst á að beiðni sjálfstæðismanna að taka fram fyrir í dagskrá fundarins og erum við ævinlega þakklát fyrir það að hæstv. forseti skuli hafa tekið tillit til þess að bæta hag fjölskyldna í landinu.

Ég og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir erum með fyrirvara við þetta mál, en ég ætla ekki að tefja umræðuna mikið. Þar sem um er að ræða sömu fyrirvarana ætla ég að mæla fyrir hennar hönd þannig að hún þurfi ekki að koma líka í ræðustól og gera grein fyrir sínum fyrirvara.

Fyrirvarinn gengur út á tvennt. Það er í fyrsta lagi að nefndin skuli á hálftímafundi gjörbreyta frumvarpinu. Á hálftímafundi síðasta fundar nefndarinnar var frumvarpinu gjörbreytt. Horfið var frá þeirri leið sem var upphaflega lögð til og færð út í alveg nýtt frumvarp, frú forseti. Ég tel þetta mjög hættulegt fordæmi vegna þess að það frumvarp sem við ræðum, breytingartillögur nefndarinnar, var ekki til umræðu við 1. umr. Það hefur ekki verið sent til umsagnar. Það hefur enginn í landinu gefið umsögn um þessa hugmynd, að miða við hlutfall af vöxtum í stað þess að vera með, eins og áður var talað um, annað hlutfall af tekjum. Ég geri alvarlega athugasemd við þetta þinglega séð, frú forseti. Ég hefði talið að þetta mál hefði átt að ræða betur, senda það til umsagnar og ræða í nefndinni svo að menn áttuðu sig á því hvað væri að gerast.

Það er svo mikil hætta á því að það komi eitthvað út úr þessu sem er ekki mjög gáfulegt eða gæfulegt. Hins vegar má benda á að verið er að taka til baka breytingu sem gerð var á þessu kerfi fyrir nokkrum árum þegar vextir voru lækkandi í þjóðfélaginu. Með þeim hætti má kannski segja að þetta sé eðlileg aðgerð. Ég vona að það sé ekki eitthvað á bak við þetta sem umsagnaraðilar hefðu hugsanlega bent nefndinni á hefðu þeir fengið að koma að málinu. En þetta var sem sagt ákveðið á hálftíma.

Ég er að sjálfsögðu með því að auka styrki til almennings en þá kem ég að öðrum fyrirvaranum. Eins og ég rakti í ræðu undir síðasta lið á dagskránni eru um 20% þjóðarinnar í verulega miklum vanda. 80% þjóðarinnar eru ekki í miklum vanda eða kannski í engum, nema hvað varðar hækkun á verðlagi sem tekur til baka launahækkanir síðustu eins eða tveggja ára, það er nú ekki meira. Laun hafa hækkað mjög umtalsvert öll þau átján ár sem Sjálfstæðisflokkurinn var við stjórnvölinn því þá hækkuðu laun hér á landi en hvergi annars staðar í heiminum. En það var líklega vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn var einn við völd — eins menn eru alltaf að ítreka hérna. Það var enginn flokkur með okkur í þeirri ríkisstjórn sem hækkaði launin svona svakalega.

Ef þetta frumvarp yrði samþykkt yrðu settar 2.000 millj. kr. til allra í landinu, allra. Líka þeirra 80% sem í reynd eru ekkert voðalega illa sett og það þýðir að þau 20% sem eru virkilega illa sett, frú forseti, fá hlutfallslega minna, fá ekki nema einn fimmtung af þessu eða 400 milljónir. Ég hefði talið miklu skynsamlegra ef ég væri hæstv. ríkisstjórn, að setja þessar 2.000 milljónir í atvinnuleysisbætur, t.d. að hækka mörkin á tekjutengdum atvinnuleysisbótum þessa þrjá mánuði sem menn eru með tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Það eykur ekki eftirspurnina eftir atvinnuleysisbótum, frú forseti. Það hefði gagnast því fólki sem er virkilega í vanda. Ég held að vandinn, ef maður reynir að kristalla vandann, sé hjá því fólki sem verður atvinnulaust, var kannski með mjög háar tekjur í bankakerfinu, 2–3 millj. kr. á mánuði og lækkar svo niður í 230 þús. kr. sem er tekjutengda hámarkið í þrjá mánuði. Og síðan eftir þrjá mánuði dettur það niður í um 160 þús. kr. Þetta er svakalega mikið fall, frú forseti. Þarna er vandinn. Við hefðum átt að setja þessar 2.000 milljónir í það annaðhvort að lengja þann tíma sem tekjutengdu bæturnar eru um einn eða tvo mánuði, ég veit ekki hvað það er mikið, eða að hækka mörkin. Það hefði verið miklu skynsamlegra en að gusa peningunum út á alla þjóðina, líka þeirra sem eru ekki í neinum sérstökum vanda.

Þetta er sama vandamálið og ríkisstjórnin gerði með séreignarsparnaðinn. Þar var dælt út milljón á alla burt séð frá því hvort þeir voru í vanda eða ekki. Ég kom með breytingartillögu þar, frú forseti, sem gerði það að verkum að þeir sem væru virkilega í vanda gætu fengið séreignarsparnað sinn að fullu útgreiddan og það yrði gert með skuldajöfnun þannig að ekkert fé þyrfti að losa í kerfinu. Menn féllust ekki á það af einhverjum furðulegum ástæðum, það var enginn sem mælti því bót, og ákváðu heldur að borga út milljón á hvern einasta mann. Svo eru fleiri þúsundir manna núna að taka út séreignarsparnaðinn og valda miklum vanda hjá lífeyriskerfinu af því að búa þarf til lausafé út af þessu. Ríkisstjórnin er að gera mistök aftur og aftur og aftur. Það er bara þannig. Hún er alltaf að setja peninga til allra í staðinn fyrir að einbeita sér að þeim fjölskyldum í landinu sem eru virkilega í vanda.

Þetta eru þessir tveir fyrirvarar sem ég er með við þetta mál, frú forseti. Að öðru leyti get ég fallist á að bæta stöðu fjölskyldna þó þær fjölskyldur sem eru virkilega í vanda fái ekki nema einn fimmta eða 400 millj. kr. í stað þess að þær hefðu getað fengið 2.000 millj. kr. ef menn beittu þessu í gegnum atvinnuleysistryggingar.