136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

tekjuskattur.

410. mál
[15:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gera athugasemd við það sem hv. þingmaður sagði um að þetta kæmi þeim til góða sem eru illa settir. Samkvæmt fylgiskjali frumvarpsins getur fólk sem er með 12 millj. kr. í tekjur á ári, þ.e. hjón með milljón kr. á mánuði í tekjur, fengið vaxtabætur. Er það virkilega fólk sem þarf að styrkja?

Það getur líka verið að fólk fái vaxtabætur sem hefur ekki misst vinnuna, ekki einu sinni yfirvinnu og hefur meira að segja fengið launahækkanir á árinu og er í rauninni bara í ósköp góðu lagi nema að verðlagið hefur að sjálfsögðu hækkað hjá því fólki eins og öðru. Kaupmátturinn hverfur kannski 1–2 ár aftur í tímann. Það fólk fær núna hlutdeild í þessum 2.000 millj. kr. sem hæstv. ríkisstjórn er að gusa út. Ég segi gusa vegna þess að staðan er slæm. Það er mjög slæm staða í þjóðfélaginu. Á sama tíma dæla menn milljörðum í tónlistarhús, gefa Sögu Capital 10 milljarða o.s.frv. Hæstv. ríkisstjórn gerir það eins og ekkert hafi gerst.

Það þarf að fara að skera niður, frú forseti. Hv. þingmaður þarf að gera sér grein fyrir því að það þarf að skera niður og menn þurfa að fara vel með þá peninga sem til eru. Ef við höfum 2.000 millj. kr. til ráðstöfunar mundi ég vilja setja þær í atvinnuleysisbætur eins og ég sagði því að þar er hinn raunverulegi vandi. Það mundi duga miklu betur. Þá færu 2.000 millj. til þess hóps sem er verst settur á Íslandi í staðinn fyrir að nú fær hann bara einn fimmta af þessu af því að hann er bara einn fimmti af þjóðinni, sá hópur sem er virkilega í vandræðum.