136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

tekjuskattur.

410. mál
[15:56]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Þá vitum við, virðulegi forseti, að hv. þingmaður lítur svo á að þessar endurgreiðslur séu sólundun á fé. Þá er spurning hvort það komi í ljós í atkvæðagreiðslu að Sjálfstæðisflokkurinn sé allur sammála hv. þingmanni. (Gripið fram í.) Það á eftir að koma í ljós í atkvæðagreiðslunni. (Gripið fram í.) Ég held að hv. þingmaður ætti aðeins að slaka á og leyfa mér að tala.

Og ég verð líka að segja að ég er undrandi á þessum ummælum hv. þingmanns varðandi Samfylkinguna. Hv. þingmaður veit vel að Samfylkingin var ekki með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn í 18 ár. (PHB: Síðustu tvö.) Við erum núna að glíma við afleiðingar þessarar 18 ára valdasetu Sjálfstæðisflokksins þar sem það var vanrækt að taka á vanda gjaldmiðilsins. Löngu fyrir bankahrun vorum við komin með einhverja hæstu vexti í Evrópu og jafnvel í heimi. (Gripið fram í.) Og við vorum hér með hæstu verðbólguna. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Löngu fyrir bankahrun voru heimilin hér farin að lenda í vanda. Þetta var fyrirséð og þetta eru afleiðingarnar sem við glímum við og við grípum núna til þeirra ráða að beita vaxtabótakerfinu til að beina þessum fjármunum inn á rétt heimili, inn á þau heimili sem raunverulega þurfa á því að halda.

Hv. þingmaður virðist ekki líta á vanda heimilanna sem raunverulegan. Það gerum við hins vegar í Samfylkingunni, við lítum svo á að vandi heimilanna sé raunverulegur og þess vegna ráðumst við í þá aðgerð að nota 10 milljarða kr. á þessu ári í það heila til að endurgreiða þann gríðarlega háa kostnað sem þau þurfa að bera, m.a. út af gjaldmiðlinum.