136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:26]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég komst ekki í andsvör við ræðu hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur í gær en ég ætla að byrja á að þakka henni hlý orð sem féllu í minn garð þar og jafnframt þykir mér leitt að hafa valdið henni vonbrigðum.

Ég hef hlustað á nánast allar ræður sem hér hafa verið fluttar af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins, flestar úr þingsal en ýmsar úr skrifstofu minni í Vonarstrætinu. Langflestar athugasemdir snúa að formsatriðum, undirbúningi og öðru slíku. Ýmislegt er eflaust til í því en það er búið að endurtaka þetta svo oft að málið er algerlega tæmt að því leyti.

Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa rætt um efnisatriði og í dag komu fram fróðleg ummæli frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni um efnisatriði og við skiptumst á skoðunum um það. Ég hygg að umræðan sé algerlega tæmd og kominn tími til að ljúka 2. umr. og þau sjónarmið sem hafa komið fram, rökræn sjónarmið og gagnrýni, efnisleg — það sé orðið tímabært að ræða þau í nefndinni, klára sem sagt 2. umr. um málið í dag og fara með málið í nefndarstörf þess vegna yfir páskahelgina. Ég er alveg reiðubúinn til þess. En ég spyr hv. þingmann um efnisafstöðu hennar til 1. gr. um náttúruauðlindir í þjóðareign, að þær megi ekki framselja. Er hún andsnúin því? Þetta hefur verið rætt mjög lengi. Eins er með 2. gr. um breytingar á stjórnarskránni. Er hún efnislega á móti því? Þetta ákvæði er tekið upp úr vinnu stjórnarskrárnefndar sem starfaði síðast fyrir kosningarnar 2007 og jafnframt um 3. gr. þar sem farin er ákveðin leið til að veita kjósendum rétt til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilsverð mál. Hver er efnisleg afstaða hv. þingmanns til þessara þriggja greina sem ég gerði að umtalsefni?