136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:31]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Formsatriðin vefjast skiljanlega fyrir hv. þingmanni en það er reynsla mín í mínum störfum, bæði á vettvangi Alþingis og sem lögmaður, að það er hægt að vinna góða hluti á stuttum tíma, á tiltölulega mjög stuttum tíma. Þetta á hins vegar ekki við um 1. gr., hún hefur verið í umræðu í yfir 10 ár. Sama gildir um 2. gr., hún er þrautrædd, það er ekki eins og þingið hafi verið að byrja á upphafsreit varðandi 1. og 2. gr. Því fer víðs fjarri. Hér er tekist á um það grundvallaratriði hvort auðlindir sem aðrir hafa ekki einkaeignarrétt yfir eigi að vera eign þjóðarinnar eða að við getum framselt þær til einkafyrirtækja, erlendra eða innlendra. Ég er sjálfur alfarið á móti því. Ég vil t.d. að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar en að handhafar aflaheimilda hafi auðvitað nýtingarrétt sinn og ég hef lýst því hér.

Umræðan er tæmd, sjónarmiðin hafa öll komið fram, umræðunni er í raun lokið fyrir löngu, henni var lokið fyrir helgi þess vegna (Gripið fram í.) eða á mánudaginn. Öll sjónarmið hafa komið fram, ég hef hlustað á allar ræður, það er ekkert nýtt að koma fram lengur í málinu, ekkert. Þess vegna er málið orðið nógu þroskað til að fara í nefnd, þessa sérnefnd til að ræða þau málefnalegu sjónarmið sem fram hafa komið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fulla burði til að taka upp málið við 3. umr. og á meðan getum við þá klárað þau mál sem (Forseti hringir.) sjálfstæðisþingmenn telja svo mikilvægt, og ég reyndar líka, að afgreidd séu.