136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:36]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst merkilegt ef forseti hefur ekki neina tilburði til að svara hv. þm. Jóni Magnússyni þegar hann ber fram eðlilegar spurningar. Það er ekki nóg með að enginn flutningsmanna sé við og að tveir síðustu hv. ræðumenn hafi báðir lagt til að málið færi aftur til nefndar. Hvort hv. þingmaður vill klára umræðuna fyrst eða ekki er ekki aðalatriðið, mér finnst aðalatriðið að menn vilja að málið fari aftur til nefndar. Við erum að funda í páskavikunni, daginn fyrir skírdag, og eftir því sem mér skilst er það í fyrsta skipti í þingsögunni sem það er fundað á þeim degi. Það er alveg ljóst að umræðu um þetta mál er ekkert að ljúka.

Ég bið hæstv. forseta a.m.k. að virða hv. þingmenn (Forseti hringir.) svars sem koma upp undir liðnum um fundarstjórn forseta.